Ráðherra leggi sjálfstætt mat á umsækjendur

Hópur hæstaréttarlögmanna hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun meðal lögmanna til stuðnings Jóni Steinari Gunnlaugssyni, hæstaréttarlögmanni og eins umsækjenda um embætti hæstaréttardómara sem losnar um næstu mánaðamót. Í texta undirskriftasöfnunarinnar er settur dómsmálaráðherra í málinu, Geir H. Haarde, hvattur til að leggja sjálfstætt mat á kosti umsækjendanna þegar hann veitir embættið.

"Ég get staðfest að það er hópur lögmanna sem hratt þessu af stað," segir Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið. Kveðst hann vera í þeim hópi. Að sögn Sveins Andra telur hópurinn að Jón Steinar, að öðrum umsækjendum ólöstuðum, njóti ekki sannmælis í umsögn Hæstaréttar um umsækjendurna sjö sem sóttu um embættið. "Í annan stað finnst okkur lögmannsstörf almennt hafa lítið vægi í þessari umsögn," segir Sveinn Andri, "og við höfum áhyggjur af því ef sá sem einna fremst stendur í hópi lögmanna þyki ekki gjaldgengur. Okkur þykir það undarlegt. Þar með er verið að segja að það sé alls ekki stefna Hæstaréttar að mæla með hæstaréttarlögmönnum í dómarastarf." Hann segir að söfnunin sé á frumstigi en texti hennar gengur nú manna á milli í lögmannastétt.

Leggi sjálfstætt mat á umsækjendur

Texti undirskriftasöfnunarinnar hljóða svo: "Undirritaðir lögmenn lýsa undrun sinni á umsögn Hæstaréttar um einn umsækjenda um embætti hæstaréttardómara, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann og prófessor. Þar er hlutur hans að okkar dómi gerður miklu verri en efni standa til.

Enginn vafi er á því, að Jón Steinar Gunnlaugsson er í fremstu röð íslenskra lögfræðinga og á að baki glæsilegan feril. Hann hefur m.a. flutt mörg af merkustu dómsmálum síðari ára á Íslandi. Er hann af öllum sem til þekkja, m.a. dómurum og lögmönnum, talinn afburðamálflytjandi. Farsæll kennsluferill hans og umfjöllun hans um lögfræði á öðrum vettvangi, bæði í ræðu og riti, ber einnig góðum hæfileikum hans vitni.

Það er mat undirritaðra að Jón Steinar væri afar vel að því kominn að verða skipaður dómari við Hæstarétt. Hefur raunar iðulega verið hamrað á því í umræðu undanfarinna ára hvílík nauðsyn sé á því að í réttinn verði skipaður starfandi lögmaður. Er raunar vandséður verðugri fulltrúi þeirrar stéttar til setu í Hæstarétti. Með þessum orðum er ekki verið að kasta nokkurri rýrð á aðra umsækjendur um embættið.

Undirritaðir hvetja settan dómsmálaráðherra til að leggja sjálfstætt mat á kosti umsækjendanna og hagsmuni Hæstaréttar til framtíðar litið, þegar hann veitir embættið."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert