Halldór: Stækkun í Straumsvík og nýtt álver á Norðurlandi rúmast innan Kyoto

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að ef verði af stækkun álversins í Straumsvík og byggingu nýs álvers á Norðurlandi muni það skapa 2000-2500 ný störf á tímabilinu frá 2007 til 2012, hagvöxtur yrði 5-6% meiri en ella og tekjur ríkissjóðs verði 10-15 milljörðum meiri. Þá lægi fyrir þessar framkvæmdir rúmist ágætlega innan skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Meðaltalslosun gróðurhúsalofttegunda á þessu tímabili yrði um 1500 þúsund tonn en skuldbindingar Íslendinga eru 1600 þúsund tonn.

Stóriðjumál voru rædd utan dagskrár í dag að ósk Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Ögmundur sagði, að Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, hefði farið til New York ásamt sveitarstjórnarmönnum að boði Alcoa og kropið við borð auðhringsins.

„Að sögn Valgerðar hafði forstjóri Alcoa aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Það er örugglega rétt. Að erlendum fyrirtækjum skuli sett algert sjálfdæmi um stór og afdrifarík mál af þessu tagi, sem hafa gríðarleg áhrif, ekki bara á þessu svæði heldur á atvinnulíf og náttúru og efnahag landsins alls, er örugglega séríslenskt fyrirbæri, bundið við ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Athöfnin ytra var dapurleg en táknræn um leið um niðurlægingu lands og þjóðar á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar," sagði Ögmundur.

Hann sagði að varnaðarorð kvæðu við úr öllum áttum. Bara væntingarnar um fréttir gærdagsins hefðu leitt til gengishækkunar krónunnar og þannig lækkað tekjur ferðaþjónustu og sjávarútvegsins. Hann sagði að málið snérist ekki um störf heldur hvar störfin væru búin til. „Viljum við fjölbreytni á Íslandi eða viljum við setja alla í stóriðjuálið?" spurði hann.

Óvíst hvort orka fáist fyrir stóriðju á Suðurnesjum
Halldór Ásgrímsson sagði að staða málsins væri sú, að viðræður stæðu yfir um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík. Orkuveita Reykjavíkur hefði þegar gefið vilyrði fyrir 40% af þeirri orku sem þyrfti til, og viðræður stæðu yfir við Landsvirkjun um að útvega þá orku sem á vantaði. Næðust samningar þar um væri verið að ræða um framkvæmdir á árunum 2007 til 2010.

Þá hefði verið ákveðið að athuga nánar byggingu álvers á Norðurlandi og ef af yrði gætu framkvæmdir orðið á árunum 2010-2012 eða 2013. Halldór sagði, að ef þetta gengi eftir hefði hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur meiri orku til að selja á þessu tímabili. Ekki væri hægt að svara því hvort Orkuveita Suðurnesja gæti lagt orku til framkvæmda, sem rætt væri um á Suðurnesjum.

Sagði hann að málið snérist um hvort menn vildu hafa hagvöxt hér á landi ½-1% lægri að meðaltali á ári á næsta kjörtímabili en ella. Væntanlega væru þingmenn VG tilbúnir til að sætta sig við aukið atvinnuleysi á næsta kjörtímabili.

Þá sagði Halldór, að nú væru í byggingu í heiminum álver, knúin með vatnsafli og gufu, sem ættu að framleiða samtals 1150 þúsund tonn af áli. Þá væri verið að reisa álver, knúin með jarðgasi, sem eiga að framleiða 1450 þúsund tonn og kolaknúin sem eiga að framleiða tæpa 1 milljón áltonna. Álver knúin með kolum losuðu 14-15% meira af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en vatnsaflsknúin álver. Fyrir lægi, að ef ekki yrði af framkvæmdum hér á landi yrði einfaldlega byggt meira af kolaknúnum álverum. „Við erum að tala um hnattræn áhrif og það er aldeilis fráleitt að halda því fram að það sé neikvætt fyrir umhverfismál í heiminum að við Íslendingar nýtum okkar vistvænu orku," sagði Halldór.

Tímabært að greitt verði fyrir aðgang að náttúruauðlindum
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri afstaða flokksins að aðeins væri rými á næstu 10 árum fyrir álversframkvæmdir upp á 250 þúsund tonn. Af því leiddi, að ekki væri hægt að fara í alla þá uppbyggingu sem nú væri í umræðunni. Það myndi hafa í för með sér óbætanleg ruðningsáhrif og ekki rúmast innan skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kyoto-samkomulaginu.

Ingibjörg Sólrún sagði að álfyrirtækin yrðu að fá skýra vísbendingu um að hér yrði ekki boðið upp á frjálsa nýtingu takmarkaðrar auðlinda í lofti eða á láði. En aðalatriðið væri að ekkert lægi á og enginn atvinnubrestur væri í landinu.

„Ég tel því að nú eigi að gera hlé á ákvarðanaferlinu um ný álver. Gera þær náttúrufarskannanir sem nauðsynlegar eru vegna nýtingar jarðvarma og skoða ýtarlega alla virkjunarkosti sem koma til álita. Að því loknu á að velja þann kost sem er hagkvæmastur fyrir þjóðina. En ég tel líka, að það eigi að skoða það af fullri alvöru að fara nýjar leiðir í þessum málum, afnema þær ívilnanir sem virkjanir og stóriðjufyrirtæki hafa notið og gera kröfu um að greitt verði fyrir aðganginn að náttúruauðlindunum. Það er tímabært að stóriðjuframkvæmdir búi við sömu starfsskilyrði og aðrar framkvæmdir í landinu," sagði Ingibjörg Sólrún.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að samkomulagið í gær væri ekki þess eðlis að breyta þyrfti áætlunum fjármálaráðuneytisins því engin ákvörðun lægi fyrir um hvort álver verði byggt á Norðurlandi. Ekki lægi heldur fyrir ákvarðanir um að stækka þau álver, sem fyrir eru hér á landi.

Árni sagði að það væri stefna ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins að nýta auðlindir landsins og að því væri unnið eftir því sem kostur væri. Ákvarðanir yrði hins vegar að taka á eðlilegan hátt.

Þá spurði Árni hvort skilja ætti yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar þannig, að best væri að hætta við þær samningaviðræður sem Alcan stæði nú í við Landsvirkjun um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík.

Framkvæmdatími á Húsavík heppilegur
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því samkomulagi, sem kynnt var í gær um að kannað verði hagkvæmni þess að reisa álver við Húsavík og nýta jarðorku svæðisins. Sagði Kristján að tímaramminn væri líka heppilegur út frá öðrum framkvæmdum og stöðu efnahagsmála. Vonandi gæti tekist sátt um um þessa framkvæmd milli náttúruverndarsinna og þeirra sem vildu efla landsbyggðina og sporna gegn frekari náttúruspjöllum með áframhaldandi fækkun íbúa landsbyggðarinnar. Einnig sagðist Kristján fagna því að ýmsir ráðherrar væru farnir að draga í land varðandi fjölda álvera, sem ætti að byggja á næstu árum.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að ítrekað klúður stjórnvalda á undanförnum árum hefði brotið niður byggðirnar og því hefðu Húsvíkingar og Norðlendingar eðlilega fagnað nú þegar talað væri um að kanna möguleika á að reisa álver við Húsavík. „Fólk verður jú að hafa vinnu," sagði Magnús en sagði að það væri umhugsunarvert að Íslendingar létu útlendinga ráða ferðinni í stóriðju. „Hvar eru allir íslensku fjárfestarnir með alla sína milljarða, sem eru núna í útrás? Hvers vegna fjárfesta þeir ekki í álverum hér á landi?" spurði Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert