Flugmælingar á veðuráhrifum Grænlands hafnar

Flugmælingarnar eru liður í viðamikilli rannsókn á áhrifum Grænlands veður
Flugmælingarnar eru liður í viðamikilli rannsókn á áhrifum Grænlands veður mbl.is/RAX

Flugmælingar vegna rannsókna á áhrifum Grænlands á veður eru að hefjast og verður í dag flogið með vísindamenn að suðurodda Grænlands til að mæla mikinn vindstreng sem þar er. Guðrún Nína Petersen, íslenskur veðurfræðingur við háskólann í A-Anglíu er með í för. Flugið stendur yfir í allan dag og verða gerðar mælingar sem ekki hefur gefist kostur á að gera með hjálp gervitungla, m.a. orkuflæði frá sjó upp í andrúmsloftið, en mikill vindur er á svæðinu og getur farið allt upp í 50 metra á sekúndu.

Mælingarnar eru hluti af átaki sem miðar að því að bæta veðurspár á þessu svæði kringum Ísland og í N-Evrópu með því að lýsa og skilja betur áhrif Grænlands á loftstrauma. Að sögn Jóns Egilssonar, prófessors við Óslóarháskóla hefur verið vitað lengi af líkönum að svæðið sé mjög virkt.

Hins vegar eru nú vísindamenn, m.a. Jón Egill, Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og Guðrún Nína Petersen auk kanadískra og breskra veðurfræðinga að rannsaka svæðið með því að fara þangað með flugvél og framkvæma mælingar á staðnum.

Flugvélin sem notuð er til ferðarinnar er þakin mælitækjum auk þess sem svokölluðum sondum er sleppt úr vélinni og þversnið þannig tekið í gegn um andrúmsloftið.

Meðal þess sem verið er að rannsaka er orkuflæði frá sjó og upp í andrúmsloftið og þær breytingar þegar mikið kalt loft kemur að hlutfallslega hlýrri sjó með þeim afleiðingum að gífurleg orkuskipti verða.

Flogið var í morgun um klukkan 10:30 og er áætlað að vísindamennirnir lendi aftur klukkan 15:30 í dag. Að sögn Jóns Egils er um nokkuð hættusamt flug að ræða þar sem mikill vindur er á svæðinu, en meðalvinhdhraði getur þar farið allt upp í 50 metra á sekúndu í nokkur hundruð metra hæð þar sem m.a. verður flogið. Þá er engin leið að lenda flugvélinni ef e-ð bregður út af þar sem vindhraðinn á jörðu niðri getur verið um 30 metrar á sekúndu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert