Fréttaskýring: Jökullinn getur verið áratugi að jafna sig

Átján af þeim tuttugu jökulhlaupum sem frá landnámi hafa orðið í kjölfar eldvirkni í Mýrdalsjökli hafa ruðst yfir Mýrdalssandinn. Í tvö skipti kom hlaup úr Sólheimajökli yfir Sólheimasand og fyrir um 1.200 árum ruddist hlaup úr Entujökli niður Markarfljótsaurana af miklum krafti.

Í þau skipti sem þekkt er að gosið hafi í Kötlu í framhaldi af eldvirkni í Eyjafjallajökli hefur hlaupið farið yfir Mýrdalssandinn, þótt raunar hafi einnig orðið lítið hlaup í Sólheimajökli eftir gosið sem varð eftir að eldvirkni hófst í Eyjafjallajökli 1821. Hlaup hafa einnig orðið í Eyjafjallajökli í kjölfar eldvirkni þar, m.a. niður Markarfljótsaurana, en þau hafa verið mun kraftminni en Kötluhlaupin.

Að sögn dr. Helga Björnssonar jöklafræðings virðist lega gossprungunnar nú ekki gefa ástæðu til að ætla að hlaup verði alveg á næstunni. „Ef hún er að vaxa í norðaustur, líkt og talið er, þá er lítill jökull á því svæði. Þar er vissulega eitthvað um snjó sem getur valdið einhverjum vatnavöxtum, en það er ekki nægur forði af vatni til að valda hlaupi,“ segir Helgi. „Til þess að hlaup geti orðið þarf gossprungan annaðhvort að stefna undir Eyjafjallajökul eða Mýrdalsjökul.“

Katla eina tengingin

Mikið er um sprungur á Fimmvörðuhálsi þar sem gosið er og því ekki útilokað að eldvirknin skipti um stefnu. Enda var gosið enn að færast í aukana í gær.

Undir Eyjafjallajökli í norðvestur liggur Sker, þar sem gaus 920. Í austur stefna sprungurnar síðan í átt að Kötlu, sem er eina eldstöðin sem Eyjafjallajökull hefur tengingar við. „Það hefur gerst áður að eldvirknin flytjist á milli sprungna og leiti hún í átt að Kötlu þá er ástæða til að hafa áhyggjur,“ segir Helgi. En í bók sinni Jöklar á Íslandi lýsti hann Kötlu sem illræmdustu eldstöð landsins.

„Það er eins og tengingin við Mýrdalsjökul hafi orðið virk 1823 eftir langt gos í Eyjafjallajökli og 1612 telja menn raunar einnig tengingu hafa verið þarna á milli,“ segir Helgi. Slíkt eigi raunar við um öll þekkt gos í Eyjafjallajökli. „Þær vita þarna hvor af annarri.“ Sú spurning vaknar því hvort gosi í Eyjafjallajökli fylgi óumflýjanlega gos í Kötlu. „Það er mjög vel fylgst með þessum málum í dag, en það getur vel verið að einhver gos í Eyjafjallajökli á öldum áður hafi einfaldlega aldrei uppgötvast. Það gæti verið verðugt rannsóknarefni fyrir eldfjallafræðinga.“

Áratugi að jafna sig

Mýrdalsjökull, líkt og fleiri jöklar hér á landi, hefur verið að hopa undanfarna áratugi. Sólbráð og hlýnun loftslags hafa meiri áhrif á stærð jökulsins en eldgos. En Helgi hefur reiknað út að Mýrdalsjökull verði svo gott sem horfinn árið 2170, haldi loftslag áfram að hlýna líkt og spáð hefur verið.

Gos í Kötlu getur engu að síður líka haft áhrif á stærð jökulsins, þótt áhrifin séu staðbundnari. Þannig segir Helgi það geta tekið jökulinn nokkra áratugi að ná fyrri stærð á gossvæðinu. Ómögulegt er þó að segja fyrir um hve mikil áhrifin yrðu eða hversu kraftmikið hlaup geti orðið. „Það má þó segja að í Mýrdalsjökli er nóg af ís til að bræða, jafnvel þótt jökullinn sé minni en hann var 1918, en þá var hann líka verulega stór.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert