Færri settir í fangelsi

Fangelsið á Litla Hrauni.
Fangelsið á Litla Hrauni. Morgunblaðið/Júlíus

Fangelsismálastofnun ríkisins tók þá ákvörðun á árinu 2011 að setja færri inn í fangelsi landsins til að komast hjá því að vista tvo fanga í klefa. Stofnunin hefur ávallt reynt eins og kostur er að komast hjá því að vista fleiri en einn fanga í klefa, þó hefur það verið gert þegar brýna nauðsyn hefur borið til. Þetta kemur fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Raunar er ekki hægt að segja að svar ráðherrans sé fullnægjandi en Siv spurði um hversu oft það hefði komið fyrir að fangaklefar væru tvísetnir á síðustu fimm árum. „Klefaskráningar eru ekki skráðar hjá Fangelsismálastofnun ríkisins en þær eru skráðar hjá fangelsunum sjálfum. Ekki er hægt að fá umbeðnar upplýsingar með einföldum hætti,“ segir í svarinu.

Þó er á það bent að á tímabilinu 1. janúar til 27. október 2011 voru fimm tveggja manna klefar í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og að jafnaði tveir fangar í sérhverjum þeirra á tímabilinu. Einum þeirra klefa var lokað 27. október sl. og honum breytt í setustofu fanga. „Þess má geta að stærri klefar fangelsisins voru áður fyrr notaðir fyrir þrjá fanga og hafa því frá upphafi verið fyrir fleiri en einn fanga.“

Í fangelsinu á Kópavogsbraut 17 eru tveir klefar sem notaðir hafa verið sem tveggja manna klefar þegar brýn þörf hefur verið á því, í fangelsinu Bitru er einn klefi sem notaður hefur verið fyrir tvo fanga, og í fangelsinu Litla-Hrauni hefur, þegar brýna nauðsyn hefur borið til, verið hægt að nota þrjá klefa fyrir tvo fanga.

Siv spurði einnig hvenær þess mætti vænta að tvísetning fangaklefa heyrði liðinni tíð. Svarið var einfalt: „Þegar framboð fangelsisrýma annar eftirspurn mun tvísetning fangaklefa heyra liðinni tíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka