Fréttaskýring: Pólitísk pattstaða í Kópavogi

mbl.is/Kristinn

Enn ríkir óvissa í Kópavogi eftir að meirihlutinn í bæjarstjórn sprakk fyrir viku í kjölfar uppsagnar bæjarstjórans og staðan er flókin.

Í síðustu kosningum fengu sex framboðslistar menn kjörna í bæjarstjórn. Þar á meðal voru tvö ný framboð, Y-listi Kópavogsbúa og Næstbesti flokkurinn, sem bæði spruttu að sögn upp úr mikilli óánægju íbúa með framgöngu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem voru við völd í bænum í 20 ár.

Því þótti sumum skjóta skökku við þegar tilkynnt var fyrir helgi að fulltrúar þessara nýju framboða hefðu hafið meirihlutaviðræður við Sjálfstæðisflokkinn, eftir að slitnaði upp úr samstarfinu við Vinstri-græn og Samfylkinguna.

Eftir stuttar viðræður um helgina sendi Y-listinn hins vegar frá sér yfirlýsingu í gær og sagðist ekki sjá fram á að geta myndað starfhæfan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Skorað var á öll framboðin að mynda nokkurs konar þjóðstjórn.

Þjóðstjórn ekki heppileg

Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi, hugnast ekki þjóðstjórn. „Ég held að það sé ekki heppilegt. Kjörnir fulltrúar verða að axla ábyrgð og þessi þjóðstjórnarhugmynd er fyrst og fremst til þess fallin að menn geti auðveldlegar vikist undan ábyrgð. Þegar kemur að þessum stóru málum – og okkar bíða mörg stór mál sem þarf að leysa á næstu vikum og mánuðum – þarf að vera alveg skýrt hver fer með ábyrgðina.“

Guðríður segir ekki ganga að bærinn sé stjórnlaus dögum saman. „Það þarf að mynda meirihluta, okkur ber pólitísk skylda til þess og Samfylkingin mun ekki víkja sér undan því.“ Eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn í Kópavogi er að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur vinni saman, en Samfylkingin og Vinstri-græn hafa lýst ásetningi um að starfa saman út tímabilið. Guðríður segir að sú ákvörðun standi og flokkarnir tveir gangi saman til viðræðna.

Á fundi með flokksmönnum sínum í gær sagði Guðríður að fáir möguleikar væru eftir í stöðunni aðrir en að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki, þótt það yrðu þung skref. Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, vildi í gærkvöldi ekki tjá sig um hver yrðu næstu skref en sagði að þreifingar héldu áfram. „Það er hins vegar flókið að koma saman meirihluta þegar framboðin eru svona mörg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert