Ekki gerð refsing fyrir að halda barni nauðugu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur frestað refsingu yfir manni sem var ákærður fyrir að hafa veist að níu ára gömlum pilt og haldið honum nauðugum eftir að drengurinn gerði bjölluat á heimili drengsins. Var manninum gert að greiða piltinum 100 þúsund krónur.

Maðurinn var ákærður fyrir brot gegn frjálsræði, líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa í janúar 2010 með ofbeldi veist að níu ára pilti skammt frá heimili sínu, m.a. gripið í háls eða hálsmál drengsins, hrist hann til svo hann féll, haldið áfram að hrista drenginn þar sem hann lá í jörðinni, hótað að flengja hann, farið með hann inn í íbúð sína og haldið honum nauðugum þar til föður drengsins bar að garði og tók drenginn með sér. Við atlöguna hlaut drengurinn rauðleit strik og húðblæðingu á nokkrum punktum hægra megin neðst á hálsi og áfallastreituröskun.

Jafnframt gerðu foreldrar piltsins einkaréttarkröfu á hendur manninum þar sem þess var krafist að hann greiddi piltinum eina milljón króna í miskabætur.

 Var orðinn langþreyttur á atinu

Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst maðurinn hafa verið orðinn langþreyttur á „dyraati“ heima hjá sér, en það hefði staðið yfir meira og minna frá því í október árið 2009. Hann kannaðist við að hafa hlaupið á sokkaleistunum á eftir piltinum og gripið í hann á hlaupunum. Hann hefði ekki fellt hann í jörðina heldur hefðu þeir báðir fallið.

Maðurinn kvaðst síðan hafa tekið í hettupeysu drengsins og gengið með hann heim til sín. Þar hefði hann ætlað að fara í skó og finna síðan út hvar drengurinn byggi í þeim tilgangi að fara með hann þangað og ræða við foreldra hans. Ekki hafi orðið af því þar eð faðir drengsins hefði komið og tekið hann með sér. Faðirinn hafi ekkert viljað við sig ræða.

Sýknaður af ákæru um líkamsárás og broti á barnaverndarlögum

Það er niðurstaða dómsins að maðurinn hafi verið að reyna að hafa hendur í hári þess eða þeirra sem höfðu valdið honum og fjölskyldu hans ónæði. Það er og mat dómsins að aðgerðir mannsins hafi miðað að því að handsama viðkomandi og hann hafi ekki gengið lengra í því en nauðsynlegt var. Áverkamerki á líkama drengsins gátu, að mati læknis, frekar verið vegna þess að maðurinn tók í föt hans. Því var maðurinn sýknaður af ákæru um líkamsárás. Með sömu rökum verður hann og sýknaður af ákæru fyrir brot gegn barnaverndarlögum. Hann hafi hins vegar brotið gegn hegningarlögum með því að halda piltinum nauðugum og eins megi rekja merki áfallastreitu hjá piltinum til þessa.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi hætt rannsókn málsins í lok júlí 2010, hálfu ári eftir að brotið var framið. Ríkissaksóknari hafi fellt þá ákvörðun úr gildi í september sama ár og ákæra gefin út mánuði síðar.  Var því refsingu frestað og ef maðurinn brýtur ekki af sér næstu tvö árin fellur hún úr gildi.

Þar sem maðurinn var sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás kom ekki til álita að dæma hann til að greiða piltinum bætur vegna hennar. Hins vegar megi fallast á að frelsissviptingin  hafi verið til þess fallin að pilturinn fékk áfall og fái því greiddar 100 þúsund krónur í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert