Kæran frestar ekki afplánun

Baldur Guðlaugsson og verjendur hans í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Baldur Guðlaugsson og verjendur hans í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is

Kæra Baldurs Guðlaugssonar til Mannréttindadómstóls Evrópu frestar ekki afplánun á tveggja ára dómi sem hann hlaut í Hæstarétti 17. febrúar síðastliðinn. Þetta staðfestir Fangelsismálastofnun en veitir ekki upplýsingar um það hvar mál Baldurs er á vegi statt.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hefur Baldur falið lögmannsstofunni LEX að senda kæru til Mannréttindadómstóls, en það er mat hans og lögmanna að með dómnum hafi verið brotið á rétti Baldurs í veigamiklum atriðum í skilningi ákvæða dómstólsins.

Eins og kunnugt er var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi vegna sölu hlutabréfa í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálstofnun, segir að kæra til mannréttindadómstóls fresti ekki afplánun. Hann vill ekki tjá sig um mál Baldurs en tekur fram, að ef menn sem hlotið hafa dóma vilji flýta afplánun sé reynt að verða við því. Það sé þó ekki alltaf hægt vegna plássleysis. Með mál Baldurs verði farið eins og allra annarra sem hljóta dóm.

Spurður um hvað geti frestað afplánun segir Baldur að Fangelsismálastofnun hafi frestað afplánun sæki menn um náðun, en í lögum um fullnustu refsinga kemur fram að „óski dómþoli eftir náðun á refsingu þá skuli fresta fullnustu hennar ef hún er ekki þegar hafin þar til slík beiðni er afgreidd, enda hafi beiðnin komið fram eigi síðar en hálfum mánuði áður en afplánun skuli hefjast“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert