Lögregla hefur náð verulegum árangri í baráttunni gegn glæpasamtökum hér á landi. Betur má þó ef duga skal og á næstunni verður hafin vinna við aðgerðaráætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem taka á til allt að fimm ára. Málið var rætt á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í gærmorgun.
Nefndin boðaði á fundinn innanríkisráðherra, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, lögreglustjórann á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra, auk fulltrúa ráðuneytisins og umræddra embætta. „Við fengum ekki alls fyrir löngu skýrslu Europol þar sem skipulögð glæpasamtök, aðallega vélhjólasamtök, voru kortlögð. Sú skýrsla kveikti mikinn áhuga hjá nefndarmönnum og við vildum halda áfram með málið. Ég hef einnig átt ágætissamræður við innanríkisráðherra um málið, og var því ákveðið að fá umrædda aðila á fund nefndarinnar, svona til að glöggva okkur betur á málinu,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar.
Ríkisstjórnin samþykkti í mars á síðasta ári að veita 47 milljónir króna í tólf mánaða átak lögreglunnar til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Björgvin segir að á fundinum hafi komið fram hjá lögregluyfirvöldum, að árangurinn af þessari sérstöku baráttu sé mjög góður. „Það hefur tekist að höggva vel í þessi mál, og í raun verulegur árangur á stuttum tíma. Lögregla er mjög skipulögð í aðgerðum sínum en það þarf þó að bæta við ýmislegt, s.s. í tækjasafnið, til að ná meiri og betri árangri.“
Spurður hvort lögreglu hafi tekist að halda glæpasamtökum hér á landi í skefjum segir Björgvin að svo sé. „Mér sýnist sem tekist hafi að draga mjög úr umfangi samtakanna en ekki síður því umfangi sem þau ætla sér hér á landi. Þessa stundina er lögregla með nokkuð gott tangarhald á samtökunum. Menn hafa verið færðir í gæsluvarðhald og með mjög virku landamæraeftirliti hefur þeim tekist að koma fyrir að menn frá erlendum samtökum hafa komist hingað til lands. Lögreglu hefur því orðið mjög framgengt í því að sporna gegn útbreiðslunni, og það er að heyra á lögreglu að vel hafi tekist að sigta út þá sem ætla sér að koma hingað til lands í þessum erindagjörðum.“
Sökum þess hversu vel hefur gengið á liðnu ári er stefnt að því að framlengja átak lögreglunnar um eitt ár. „Við erum búin að óska eftir því við fjármálaráðuneytið að færð verði fjárveiting á fjáraukalög. Því hefur verið tekið vel og ég er bjartsýnn á að það verði gert. Þó á enn eftir að taka lokaákvörðun.“ Farið var fram á sömu fjárhæð og veitt var í fyrra.
Með fjárveitingunni setti lögregla af stað sérstaka teymisvinnu. Björgvin segir það skipta verulegu máli að fá frekari fjárveitingu, til að lögregla geti haldið teyminu úti sem einbeiti sér að skipulagðri glæpastarfsemi.
Fleira var þó til umræðu á fundinum í gærmorgun, nefnilega hvað fleira þurfi að gera til að sporna við glæpasamtökum. Meðal þess var rætt um hvort banna ætti glæpasamtök, eða jafnvel merki vélhjólasamtaka. Þá hefur frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir þegar verið afgreitt frá þingflokkunum og verður lagt fyrir þingið von bráðar.
Björgvin segir fundinn í gærmorgun marka upphafið að formlegu starfi nefndarinnar til að ná utan um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi, og fyrsta skrefið í að Alþingi taki þátt í baráttunni gegn slíkri vá.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir ljóst að ef ekki hefði verið farið í umrætt átak væri ástandið hér á landi mun verra. „Þetta hefur tekist mjög vel og samtökin ekki eflst á meðan á átakinu stendur. Lögreglan hefur því unnið mjög gott starf.“
Hann fagnar því að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis skuli óska eftir nánara samstarfi í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það sé mjög þarft og skipti verulegu máli.