Brotastarfsemi tekið breytingum til hins verra

Guðrún Hafsteinsdóttir segir að skýrar vísbendingar komið fram um að …
Guðrún Hafsteinsdóttir segir að skýrar vísbendingar komið fram um að umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafi tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra. mbl.is/Óttar

„Umfang skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi hefur aukist verulega síðastliðin ár með sama hætti og átt hefur sér stað víða annars staðar,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um þróun skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Guðrún vitnaði í embætti ríkislögreglustjóra og benti á að nú sé aukin ógn á skipulagðri brotastarfsemi hér á landi. Alvarlegum ofbeldisbrotum hafi fjölgað og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar einnig fjölgað verulega síðustu ár.

„Má sem dæmi nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna eggvopna hefur nær fjórfaldast frá árinu 2016. Þessar tölur eru skýr vísbending um ákveðna þróun sem ég tek mjög alvarlega,“ sagði Guðrún.

Segir breytingar á lögreglulögum mikilvægar

Diljá spurði í fyrirspurn sinni einnig um hvaða aðgerðir dómsmálaráðherra myndi grípa til svo hægt væri að sporna við þeirri þróun sem sæist á Norðurlöndunum.

„Tugir einstaklinga hafa látið lífið í tengslum við ofbeldisfull átök, meðal annars í skotbardögum. Morð, tilraunir og sprengjuárásir eru daglegt brauð og yfirvöld virðast nánast ráðþrota gagnvart vandanum,“ sagði Diljá er hún lýsti ástandinu í Svíþjóð.

Diljá Mist Einarsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún sagði þá að veigamiklar aðgerðir til varnar afbrotum mætti finna í fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á lögreglulögum.

„Ég tel frumvarpið nauðsynlegan þátt í því að efla aðgerðar heimildir lögreglu þegar kemur að baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Eitt af markmiðum lagafrumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrota varna, einkum hvað varðar afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og brot sem varðar öryggi ríkisins,“ sagði Guðrún meðal annars.

Mikilvægt að samræmast öðrum nágrannaríkjum

Diljá fylgdi eftir svari dómsmálaráðherra með fyrirspurn um hvernig væri hægt að auka samstarf með nágranna- og vinaþjóðum. Guðrún sagði þá að mikilvægt væri að samræma valdheimildir lögreglu við lögreglu í nágrannaríkjum og líta til þeirra reynslu.

„Á síðustu árum hafa skýrar vísbendingar komið fram um að umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafi tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra.

Hópur innlendra, jafnt sem erlendra aðila, hafa það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulögðum hætti. Þetta eru til dæmis alvarleg ofbeldisbrot, þjófnaður, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Þetta er verulegt áhyggjuefni,“ sagði Guðrún einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert