Umsóknin heldur áfram í kerfinu

Ákveðinn trúnaður ríkir á milli embættis lögreglunnar, Útlendingastofnunar og félagsþjónustunnar. …
Ákveðinn trúnaður ríkir á milli embættis lögreglunnar, Útlendingastofnunar og félagsþjónustunnar. „Það er spurning hvort ástæða sé til að skoða þetta frekar, sérstaklega þegar grunsemdir eru um einhver brot,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Útlendingastofnun hefur aðgang að lögreglukerfunum en engu að síður þegar þetta gerist heldur umsóknin áfram í kerfinu,“ segir Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, um mál einstaklinga sem verða uppvísir að afbrotum á sama tíma og þeir bíða eftir niðurstöðu umsóknar um alþjóðlega vernd hér á landi. 

Þetta er á meðal upplýsinga í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi sem var birt í gær.

Spurður hversu marga einstaklinga um ræðir segist hann ekki geta svarað því nákvæmlega en segir þá skipta tugum. Í skýrslunni eru engar tölur nefndar í þessum málum. Í skýrslunni er einnig nefnt að einstaklingum sem tengjast glæpahópum hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grundvelli kynhneigðar. Ekki fengust heldur upplýsingar um hversu margir þeir einstaklingar sem hafði verið veitt alþjóðleg vernd voru nákvæmlega.

Ásgeir vísar til lögregluembættanna sjálfra sem eru með málin til rannsóknar, meðal annars til lögreglunnar á Suðurnesjum. Ekki fengust að svo stöddu upplýsingar um fjölda einstaklinga sem höfðu óskað eftir alþjóðlegri vernd og mál þeirra komist til lögreglu á þeim tíma.

Að minnsta kosti tekur nokkra mánuði fyrir Útlendingastofnun að vinna úr umsóknum þessara einstaklinga.    

Ásgeir tekur fram að slík mál eru oft unnin í samvinnu við Útlendingastofnun. „Þeim er gert viðvart og skráist á feril hjá viðkomandi,” segir hann. Kerfið vinnur saman en samvinnan „mætti vera betri”. Útlendingastofnun er borgaraleg stofnun og fer yfir umsóknir en rannsakar ekki brot sem er hlutverk lögreglunnar. „Það er spurning hvort brot einstaklings hafi áhrif á umsókn viðkomandi,“ segir hann.

Stofnanirnar þurfi að tryggja miðlun upplýsinga á milli þeirra, segir Ásgeir. „Í tengslum við persónuverndarlög á að rýmka flæði upplýsinga milli stofnana í löggæslutilgangi. Það eitt og sér gæti virkað vel í svona málum,“ segir hann. 

Ákveðinn trúnaður ríkir á milli embættis lögreglunnar, Útlendingastofnunar og félagsþjónustunnar. „Það er spurning hvort ástæða sé til að skoða þetta frekar sérstaklega þegar grunsemdir eru um einhver brot,“ segir hann. 

Spurður hvort hann telji að umsóknir einstaklinga sem verða uppvísir að brotum um alþjóðlega vernd stöðvist segist hann geta svarað því og vísar til löggjafans í þeim efnum.  

Sum málin enn í vinnslu

Í skýrslunni er nefnt að kennitölur eru misnotaðar og í mörgum tilvikum eru málin snúin því menn nota kennitölur hver annars til að vinna ólöglega. „Ekki er vitað hver stendur á bak við kennitölurnar,” segir hann.

„Við vekjum athygli á þessu, að mögulega er verið að misnota kerfið með þessum hætti. Við förum ekki djúpt í málin sem slík,” segir hann. Spurður hvers vegna ekki er farið dýpra í málin segir hann skýrsluna tala sínu máli. „Við getum ekki farið ofan í einstök mál sem jafnvel eru enn í vinnslu. Samt sem áður vekjum við athygli á þessari brotalöm.”

Hann tekur fram að lögreglan sjái um að klára að rannsaka einstök mál. 

Í þessu samhengi vísar hann til þess að lögreglan hafi takmarkaðan möguleika á að fylgja svona málum eftir og að hefja frumkvæðisvinnu í þeim. Þess vegna sé mikilvægt að lögreglan hafi kost á að sinna slíkri frumkvæðisvinnu til að upplýsa um brot sem ekki eru kærð inn til lögreglu. „Það er hvorki mannskapur né vinnuafl til að rannsaka það,“ segir Ásgeir. 

Hann bendir á að lögreglan þurfi að forgangsraða og því verði til dæmis til mál þar sem grunur leikur á að einstaklingar sem sækja um vernd stundi svarta vinnu eða eru tengdir ólöglegri starfsemi sæti rannsókn.   

Við vinnslu skýrslu ríkislögreglustjóra var unnið úr upplýsingum frá lögregluumdæmunum um einstök mál sem embættið kallaði eftir, að sögn Ásgeirs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert