Lögreglan veit til þess að glæpahópar hafi aflað upplýsinga um starfsstöðvar lögreglu og tollsins. Einnig að leitað hafi verið eftir upplýsingum um lögreglumenn og fjölskyldur þeirra. Þá er reynt að hafa áhrif á túlka sem eru mikilvægir lögreglu í málum erlendra glæpahópa.
Þetta kom fram á hádegisfundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, um skipulagða glæpastarfsemi.
Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu hafa nokkuð góðan púls á málum, en ekki alhliða. Glæpahópar sem á Íslandi starfa séu mjög mismunandi, þannig séu hópar frá Litháen afar skipulagðir og skýr verkaskipting ríki. Þar hafi menn tiltekin hlutverk og þekki í raun ekki verkefni í heild, en þannig geti þeir ekki veitt lögreglu upplýsingar við rannsókn.
Á hinn bóginn séu íslenskir glæpahópar ekki eins skipulagðir. Þar ríkir flatara skipulag þar sem skipuleggjandi gegnir jafnan fleiri hlutverkum. Því sé mun líklegra að lögregla komist áfram í rannsóknum brota þeirra.
Eitt af því sem Karl Steinar nefnir er að glæpahópar hafi mikinn áhuga á starfsmönnum lögreglu eða tolls. Þetta séu einstaklingar sem hafi að geyma upplýsingar sem gagnist þeim og séu glæpahópar tilbúnir að greiða mikið fyrir þær upplýsingar. Því sé ekki hægt að útiloka að einstaklingar í opinberum störfum séu í brotastarfsemi.