Ræktendur töpuðu 30 milljónum

Kannabisræktun á höfuðborgarsvæðinu.
Kannabisræktun á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn

Einn tiltekinn glæpahópur sem hefur verið umfangsmikill í kannabisræktun hér á landi á umliðnum árum hefur tapað 30 milljónum króna á aðgerðum lögreglu höfuðborgarsvæðisins, og er þá aðeins átt við tækjabúnað. Ónefnd er sú upphæð sem hópurinn tapaði á óseldum kannabisefnum.

Þetta kom fram í máli Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, á hádegisfundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, um skipulagða glæpastarfsemi sem fram fór á Þjóðminjasafninu í dag.

Meðal þess sem Karl Steinar kom inn á í erindi sínu eru þeir fjármunir sem eru í spilinu, drifkraftur glæpasamtaka. Hann sagði augljóst að gríðarlegir fjármunir væru í glæpastarfsemi og tók sem dæmi – og birti mynd af – frystigám sem komið hafði verið fyrir í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Í honum var mjög fullkomin tölvustýrð kannabisræktun. Var hún þannig útbúin að þeir sem stóðu að ræktuninni þurftu ekki að vitja hennar nema með nokkurra daga millibili. Þannig tókst þeim að fjarlægast sem mest brotavettvang, og því ólíklegra að þeir yrðu gripnir.

Þá vísaði hann í rannsókn sem tveir nemar við Háskóla Reykjavíkur gerðu árið 2010 um umfang fíkniefnamarkaðarins á Íslandi. Niðurstaða þeirra var að veltan á markaðnum væri um sjö milljarðar króna á ári. Á sama tíma tæki lögregla fíkniefni fyrir sjö til níu hundruð milljónir. Karl Steinar sagði að ef tekið væri mið af þessum tölum væri ljóst að íslenska lögreglan tæki mun meira af fíkniefnum en þekktist í löndunum í kringum okkur. Vildi hann rekja það til smæðar samfélagsins en ekki síður þess að lögreglan væri með púlsinn á ástandinu.

Fjármunirnir eru slíkir í þessum heimi að þeim brotlegu gengur illa að koma því í umferð. Því er brugðið á það ráð að geyma peninga í bankahirslum, meðal annars í sérstökum hirslum inni á heimilum manna. Karl Steinar sagði að gríðarlega mikilvæg hefði verið lagabreyting sem gerð var fyrir fáeinum árum um upptöku ávinnings af broti. Þá þyrfti sá brotlegi að sýna fram á að hann hefði aflað fjármuna með löglegum hætti. Telur hann að margir muni lenda í vandræðum með þetta á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert