Vítisenglar hyggjast falla frá meiðyrðamáli gegn innanríkisráðherra, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Forsprakki samtakanna situr í gæsluvarðhaldi grunaður um alvarlega líkamsárás. Hann stefndi embættismönnunum fyrir þau ummæli að Vítisenglar væru glæpasamtök. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.
Vítisenglar, eða Hells Angels á Íslandi, stefndu Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu fyrir meiðyrði í desember. Stefnan var lögð fram bæði í nafni samtakanna og forsprakka þeirra, Einari Marteinssyni.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 10. janúar. Kröfðust Vítisenglar að tiltekin uppmæli yrðu dæmd dauð og ómerk og hinum stefndu yrði gert að greiða Einari og klúbbnum samtals 6,4 milljónir króna í miskabætur. Ögmundi var meðal annars stefnt fyrir að lýsa samtökunum sem skipulögðum glæpahópi sem stundaði ofbeldi.
Taka átti málið fyrir á reglulegu dómþingi á morgun en samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hafa Vítisenglar nú óskað eftir því að málið verði fellt niður. Fréttastofu er hins vegar ekki kunnugt um hvers vegna.