Mörg börn koma oft á Stuðla

Frá Stuðlum.
Frá Stuðlum. Kristinn Ingvarsson

Svipaður fjöldi barna og ungmenna kom til neyðarvistunar á  meðferðarheimilinu Stuðlum í fyrra og árið 2007, en hvert og eitt þeirra kom oftar. Algengt er að börn vistist þar oftar en einu sinni.

Þetta kemur fram í svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

30% fleiri neyðarvistanir voru á Stuðlum í fyrra en árið 2007. 93 börn komu þangað í neyðarvistun árið 2007 og þá voru vistanir 182 en 98 komu þangað í fyrra og þá voru vistanir 234 talsins.

Samtals voru 359 börn vistuð 1.114 sinnum 2007-2011. 

Stysta vistun á þessu tímabili var einn dagur, en það barn sem lengst var í vistun var á Stuðlum í 39 daga.  Lengd meðaltalsvistunar hefur lítið breyst og er um sex dagar.

Á þessu tímabili vistuðust 144 börn í eitt skipti, 70 börn vistuðust tvisvar, 122 börn komu í neyðarvistun þrisvar til tíu sinnum og 23 börn vistuðust oftar en tíu sinnum.

Svar Guðbjarts við fyrirspurn Sivjar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert