Kvenfólk fær ekki inngöngu í vélhjólasamtök á borð við Vítisengla, Útlagana, Bandidos eða Mongols. Engu að síður hafa konur hlutverk innan þeirra sem fylgihlutir eða eign meðlima. Kvenfyrirlitning er áberandi innan þessara samtaka. Þetta kom fram á morgunverðarfundi Félagsfræðingafélags Íslands.
Fundurinn sem bar yfirskriftina Útlagar eða englar? Vélhjólagengi og skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi var fjölsóttur. Á honum fluttu erindi meðal annarra Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, og Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Eitt af því sem báðir tæptu á í erindum sínum var kvenfyrirlitning innan umræddra samtaka.
Þá nefndi Helgi að þó svo að samtökin einkenni sig með stöfunum MC fyrir vélhjólasamtök (e. motorcycle club) standi þau í raun fyrir annað, nefnilega karlaklúbb (e. mens club). Mikla og áberandi kvenfyrirlitningu megi finna innan samtakanna. Konur fái ekki inngöngu nema sem fylgihlutir, svonefnt hnakkaskraut, eða sem eign meðlima. Þær eru þá oft húðflúraðar með nafni eigandans.
Karl Steinar nefndi svo í erindi sínu að þennan þátt þyrfti að skoða sérstaklega. „Við eigum ekki aðeins að hindra að piltar fari í þetta heldur einnig passa upp á stúlkurnar. Þessir menn vilja hafa stúlkur hjá sér. Það er þessi kvenfyrirlitning sem er allsráðandi hjá þeim og hluti af þessum drifkrafti. Við þurfum að berjast ötullega gegn því.“
Hann bætti því við að þessi kvenfyrirlitning væri alveg sérstök og í raun rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga. Hann raunar kallaði eftir að háskólasamfélagið stigi inn í umræðuna. Litið hafi verið á samtökin sem vandamál lögreglu, en það sé stærra og fjölþættara en menn hafi talið. Full ástæða sé til að velta fyrir sér þessum samfélagslegu afleiðingum sem af samtökum sem þessum hljótast.
Í erindi Helga vísaði hann meðal annars til BA-ritgerðar sem unnin var um hefðir og lífsgildi meðlima Vítisengla. Í þeim heimildum sem fundnar voru um samtökin og komu frá þeim sjálfum var áberandi hversu ötullega reynt var að gylla Vítisengla. Þá var talað um bræðralag og ást þeirra á bifhjólum. Litið sem ekkert var hins vegar um brotastarfsemi og þá í raun aðeins gert lítið úr þeim þætti.
Þessar heimildir voru á allt annan veg en þær sem frá löggæslunni komu. Þar var fjallað um samtökin frá almannareglu, um auknar fjárveitingar eða þörf á þeim, rýmkum á rannsóknarheimildum og öðru slíku.
Hins vegar sé það staðreynd að vélhjólasamtökunum, sem skilgreind eru sem skipulögð glæpasamtök, fylgja afbrot. Hvort þau séu framin fyrir tilstuðlan samtakanna eða það vilji svo til að meðlimir þeirra fremji afbrot er hins vegar aðeins óljósara. Og þó svo samtökin segist ekki tengjast afbrotum er ljóst að til þeirra laðast menn með brotaferil eða brotamenn sem svo mynda hagsmunatengsl.