Slóð afbrota „félagslegra lúsera“

Fjöldi fólks er á morgunverðafundi um skipulögð glæpasamtök.
Fjöldi fólks er á morgunverðafundi um skipulögð glæpasamtök. Morgunblaðið/Júlíus

Sama hvar skipulögð glæpasamtök á borð við Vítisengla (e. Hells Angels), Útlaganna (e. Outlaws) eða önnur samtök sem kenna sig við vélhjólastarfsemi, stinga niður fæti í heiminum fylgir slóð afbrota. Þetta var meginniðurstaða BA-ritgerðar sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, kynnti á morgunverðarfundi um slík samtök.

Fundurinn var á vegum Félagsfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni Útlagar eða englar? Vélhjólagengi og skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi.

Helgi sagði að í ritgerðinni hefðu hefðir og lífstíll verið rannsóknarefni og var sérstaklega horft til vélhjólasamtakanna Vítisengla og Mongols, sem bæði hafa verið skilgreind sem skipulögð glæpasamtök.

Helgi fór yfir það hverjir sæki í glæpasamtökin og sagði svörin að finna í rannsóknum bandarískra afbrotafræðinga frá miðri 20. öld á glæpagengjum. Þar var um að ræða menn sem höfðu flosnað upp úr námi, átt erfiðar heimilisaðstæður, margir höfðu framið lögbrot og í raun áttu þeir erfitt með að aðlagast hefðbundnu samfélagi. Fyrir þá táknaði venjulegt samfélag vesen, þar sem þeir ráku sig sífellt á vegg.

„Félagslegir lúserar tóku sig saman og mynduðu gengi þar sem gildum var snúið á haus, sá sem braut mest af sér var leiðtoginn og svalastur og aðrir unnu sig upp í áliti með afbrotum,“ sagði Helgi og bætti við að þarna fengu þeir virðingu, uppreisn æru og tilgang með lífi sínu. „Þetta eru mennirnir sem eru líklegastir til að vilja ganga í samtök sem þessi.“

Hann sagði samtökin samanstanda af mönnum sem eru utanveltu, þau verði framlenging á brotastarfsemi sem ella hefðu hætt fyrir fullorðinsaldur, ýta í raun undir brot fullorðinna manna. Fullorðnu afbrotamennirnir verða svo aftur fyrirmynd yngri brotamanna.

Helgi sagði ekki gleðiefni að sjá samtök sem þessi festa rætur, og Ísland hafi ágætis möguleika til að koma í veg fyrir þau. Draga þurfi úr aðdráttarafli samtakanna, að það sé ekki eftirsóknarvert að vera í þeim. Þá má ekki missa þá sem eru utanveltu og geti ratað í samtök sem slík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert