Tveir einstaklingar tengdir skipulögðum glæpasamtökum hafa setið í gæsluvarðhaldið að meðaltali síðastliðna tólf mánuði, en á tímabilinu hafa sjö hundruð gæsluvarðhaldsdagar tengst skipulögðum glæpasamtökum. Þetta kom fram á morgunverðafundi Félagsfræðingafélags Íslands.
Fundurinn var undir yfirskriftinni Útlagar eða englar? Vélhjólagengi og skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi. Meðal þeirra sem héldu erindi var Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Í erindi hans kom fram að gríðarlega margir dómar hafi fallið í umræddum málaflokki að undanförnu, mun fleiri en lögregla reiknaði með. Neikvæðu afleiðingarnar af því er að ekki tókst að undirbúa fangelsiskerfið.
Þar sé komið upp annað vandamál; fangelsi Íslands eru full af mönnum sem tengjast skipulögðum glæpasamtökum. Þar eru þeir að leita að nýjum mönnum, en helst vilja þeir fá áhrifagjarna unga pilta sem hægt er að móta. Þá kom fram að á heimsvísu eru á bilinu 50-70% meðlima Vítisengla í brotastarfsemi. Á síðasta ári var hlutfallið 64% hjá Vítisenglum á Íslandi.
Þá nefndi Karl Steinar það einnig, að gjaldeyrishöft og slíkar þvinganir hafi lítil áhrif á fíkniefnamarkaðinn íslenska. Menn kaupi aðeins fleiri flugmiða sem er svo hent. Fíkniefnamarkaðurinn sé afar sterkur hér á landi og þeir sem í honum starfa finni pottþétt leiðir framhjá þvingunaraðgerðum eins og höftunum.