Lögreglan hefur lagt hald á fundargerðarbók vélhjólasamtakanna, Vítisengla. Þar kemur fram að meðlimir samtaka á Íslandi eiga í miklum samskiptum við Vítisengla erlendis og hafa skyldur gagnvart þeim.
Þetta kemur fram í dómi sem féll í gær í Héraðsdómi Reykjaness þar sem fjórir voru dæmdir fyrir grófa líkamsárás á konu. Í ákæru voru sex menn ákærðir fyrir þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi en dómarinn taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að tengsl væru á milli starfsemi vélhjólasamtaka og líkamsárásarinnar. Einar Marteinsson, fyrrverandi forseti Vítisengla á Íslandi, var sýknaður í málinu, en hann hafði setið í hálft ár í gæsluvarðhaldi.
Lögreglan hefur margoft lýst áhyggjum af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og jafnframt hefur hún lagt áherslu á að rannsaka og kortleggja þessa starfsemi. Í dómi héraðsdóms kemur fram að lögreglan hefur lagt hald á ýmis gögn frá vélhjólasamtökum, m.a. myndir og fundargerðarbækur. Lögreglan lét taka saman skýrslu sem var rituð til þess að meta hvort um skipulögð brotasamtök væri að ræða með hliðsjón af þessu árásarmáli.
Í dómnum kemur fram að lögreglan lagði 22. mars sl. hald á fundargerðarbók Hells Angels. Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn segir að af þessari bók mætti sjá að meðlimir Hells Angels á Íslandi hefðu mikil samskipti við meðlimi Hells Angels erlendis og hefðu miklum skyldum að gegna gagnvart þeim. Þessar skyldur væru m.a. fjárhagslegs eðlis og fólgnar í skyldumætingu á ákveðna fundi. Einnig væru þær fólgnar í upplýsingaskyldu með bréfasendingum til meðlima Hells Angels erlendis og þá aðallega í Noregi. Einnig væri meðlimum Hells Angels gert skylt að taka afstöðu til deilna milli klúbba annars staðar í heiminum.
Einnig segir í dómunum að ekkert hefði komið fram í fundargerðarbókinni, sem bendlaði Hells Angels beint við einhverja brotastarfsemi, en hins vegar sæi lögregla ýmis einkenni, sem bentu til þess að samtökin störfuðu eftir sama sniði og gert væri erlendis.
Fram kemur í dómnum að þeir sem hlutu dóma í líkamsárásarmálinu hafi verið meðlimir í vélhjólasamtökum. Jón Ólafsson, sem fékk fjögurra ára dóm, er meðlimur í mótorhjólaklúbbnum S.O.D., sem mun vera skammstöfun á heitinu „Souls of Darkness“, en klúbburinn er svokallaður stuðningsklúbbur Hells Angels á Íslandi. Óttar Gunnarsson, sem fékk tveggja og hálfs árs dóm, var meðlimur í S.O.D. til skamms tíma, en mun hafa hætt í klúbbnum í kjölfar líkamsárásarmálsins.
Í dómnum segir að konur geti hvorki orðið aðilar að S.O.D. né Hells Angels. Andrea Kristín Unnarsdóttir, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsi í gær, og Elías Valdimar Jónsson, sem hlaut fjögurra ára fangelsi, munu hins vegar hafa stofnað sérstakan klúbb með heitinu Torpedo Crew, en samkvæmt bókun í fundargerðabók Hells Angels virðist sá klúbbur hafa haft einhver tengsl við Hells Angels á Íslandi.
Andreu og Elías sögðu að þau hefðu ekki stofnað til klúbbsins í neinni alvöru og sögðu starfsemi hans hafa lagst af fljótlega eftir stofnun. Engin gögn hafa verið lögð fram um starfsemi klúbbsins fyrir utan ljósmyndir í upplýsingaskýrslu lögreglu. Þar segir og að innan lögreglu sé lítil vitneskja um starfsemi klúbbsins.
Í dómi héraðsdóms segir að ekkert í þessum fundargerðabókum eða öðrum gögnum málsins renni stoðum undir það að tengsl séu á milli þessara samtaka og líkamsárásarinnar á konuna 22. desember sl. Málið eigi rót að rekja til persónulegs ágreinings brotaþola og Andreu. Dómarinn taldi ljóst að áralangur kunningsskapur Andreu við Jón, Elías og Óttar hafi valdið því að þeir drógust inn deilurnar.
„Með hliðsjón af öllu framangreindu og sérstaklega aðdraganda árásarinnar verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sýna fram á að brot ákærðu Andreu, Elíasar, Jóns og Óttars hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka, enda verður heldur ekki talið að sýnt hafi verið fram á að brotið hafi verið framið í ávinningsskyni, hvorki beint né óbeint,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Ákæruvaldið hélt því fram að Einar Marteinsson hefði tekið þátt í að undirbúa árásina og gefið leyfi fyrir henni í krafti stöðu sinnar sem formaður Vítisengla. Dómarinn taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna þetta.
Einar var ekki á staðnum þegar árásin var gerð. Fyrir liggur að Andrea, Jón og Elías fóru á fund Einars kvöldið fyrir árásina. Einnig ræddi konan sem varð fyrir árásinni og Andrea við Einar fyrir árásina. Konan segist hafa gert það vegna þess að hún taldi að Andrea tæki mark á því sem Einar segði. Aðrir sem ákærðir voru í málinu sögðu að Einar hefði ekki fyrirskipað árásina.
Einar var úrskurðaður í gæsluvarðhald fljótlega eftir árásina og var varðhaldið ítrekað framlengt. Hann áfrýjaði jafnan úrskurðunum til Hæstaréttar og staðfesti Hæstiréttur síðasta gæsluvarðhaldsúrskurðinn í gær. Úrskurðurinn var birtur nokkrum klukkutímum eftir að hann var sýknaður í héraðsdómi.
Héraðsdómur hafnaði að framlengja gæsluvarðhald yfir Einar í vor, en Hæstiréttur sneri þeim úrskurði við.