Aðgerðir lögreglu gegn vélhjólagengjum eru liður í baráttunni við skipulega brotastarfsemi og í þeim anda sem samfélagið vill að lögreglan starfi. Þetta segir Ögmundur Jónasson, ráðherra dómsmála. Hann segir aðgerðir líkt og í gær, þar sem 16 meðlimir Outlaws voru handteknir, sendi tvímælalaus skilaboð út í samfélagið.
„Lögreglan gerir allt sem í hennar valdi stendur til að koma skipulögðum brotasamtökum í skilning um að þeirra starfsemi verður ekki liðin og þarna held ég að lögreglan eigi góðan hljómgrunn með þjóðinni,“ segir Ögmundur. Hann bendir á að nú hafi í tæplega 2 ár verið unnið mjög markvisst að því að herða sóknina gegn skipulögðum glæpum. „Því það er nokkuð sem Íslendingar vilja ekki í sínu samfélagi.“
Ögmundur segir að mjög góð samstaða sé með lögreglunni, innanríkisráðuneytinu og Alþingi. Sjálfur var hann upplýstur um aðgerðir lögreglunnar í gærkvöldi. Aðspurður hvort forvirkar rannsóknarheimildir myndu koma til með að auðvelda þessa baráttu segir Ögmundur að í þessari aðgerð hafi lögreglan stuðst við heimildir sem þegar séu í lögum.
„Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki rýmkun á slíkum heimildum sem við þurfum á að halda, heldur fumlaus vinnubrögð lögreglu og góð samvinna með þjóðinni og það finnst mér vera að takast.“
Þrír þeirra sem lögreglan handtók í gærkvöld voru í kvöld úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald, í Héraðsdómi Reykjaness, vegna rannsóknarhagsmuna. Dómari frestaði til morguns ákvörðun um gæsluvarðhald yfir fjórða manninum. Hinum sem voru handteknir hefur verið sleppt.