Biðu eftir strætó með skotvopn og skotfæri

Skotvopn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Skotvopn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Þorkell

Þrennt er í haldi lögreglunnar á Sauðárkróki í tengslum við rannsókn á skotvopna- og skotfæraþjófnaði, en brotist var inn í aðstöðuskúr Skotfélagsins Ósmanns í nótt. Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði við handtökurnar. Tveir hinna handteknu voru að bíða eftir strætó þegar þeir voru handsamaðir, en þeir voru með skotvopn og skotfæri á sér.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að fólkið hafi verið handtekið á hádeginu í dag. Um er að ræða tvo karlmenn á þrítugsaldri og konu um tvítugt. Mennirnir, sem eiga langan brotaferil, eru aðkomumenn en stúlkan er búsett á Sauðárkróki.

Fjögur skotvopn og talsvert af skotfærum

„Við náðum að leggja hald á skotvopnin og skotfærin sem hafði verið stolið. Það er nú gott að þau eru komin úr umferð,“ segir Stefán Vagn. Um er að ræða fjögur skotvopn; tvo riffla og tvær haglabyssur. Þá voru mennirnir með tölvuvert mikið magn af skotfærum í sínum fórum.

Annar mannanna tengist hótunarmáli sem kom upp sl. miðvikudagskvöld, en þá höfðu tveir menn í hótunum við ungt fólk á heimili þeirra í bænum. Mennirnir reyndu að hafa af þeim fé en án árangurs. Stefán Vagn tekur fram að málin tengist ekki að öðru leyti en því að annar mannanna komi við sögu í þeim báðum.

Einnig var brotist inn í húsnæði Sundlaugarinnar á Sauðárkróki í nótt, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort um sömu aðila hafi verið að ræða. „Grunur okkar er sá að þarna að þetta séu sömu aðilar sem þarna hafi verið að verki,“ segir Stefán Vagn.

Undir áhrifum vímuefna

Fólkið er nú vistað í fangageymslu og munu yfirheyrslur hefjast nú síðdegis, en Stefán Vagn segir að mennirnir hafi verið undir áhrifum vímuefna þegar þeir voru settir í járn. Rætt verður við þá þegar víman verður búin að renna af þeim. Mögulega verður farið í frekari húsleitir í tengslum við rannsókn málsins.

„Við fengum aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjórans, út af því að við vissum að þeir væru með vopn. Þeir aðstoðuð við handtöku á þessu fólki,“ segir yfirlögregluþjóninn og bætir við að mennirnir hafi veitt litla mótspyrnu við handtöku, en lögreglan náði að koma mönnunum á óvart.

Mennirnir voru að bíða eftir strætisvagni við bensínstöð í bænum með vopnin og skotfærin á sér þegar lögregluna bar að garði í hádeginu í dag. „Þeir ætluðu væntanlega að fara koma sér suður til Reykjavíkur,“ segir Stefán Vagn.

Spurn eftir skotvopnum?

Spurður hvort hann telji þetta tengjast starfsemi vélhjólagegna sem hafa verið mikið í fréttum að undanförnu segir Stefán Vagn: „Okkar tilgáta er sú að við vitum af því að það er búið að vera mikið átak í Reykjavík og víðar varðandi þessi vélhjólagengi; það er búið að leggja hald á gríðarlega mikið af vopnum. Lögreglan hefur gert mikið upptækt af vopnum. Það er spurning hvort nú sé eftirspurn - menn séu að græja sig aftur upp. Nú séu menn að leita sér aftur að vopnum,“ segir Stefán Vagn en bætir við að þetta sé aðeins tilgáta og málið sé á frumstigi.

„Ef rétt reynist þá er þetta eitthvað sem menn verða að vera mjög vakandi yfir allsstaðar,“ segir hann.

Gengu hreint til verks

Aðspurður segir Stefán Vagn að það hafi verið mjög vel gengið frá skotvopnunum í aðstöðuskúr Skotfélagsins Ósmanns. Þjófarnir hafi hins vegar verið kunnáttumenn „sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera og þeir gengu mjög hreint til verks.“ Það hafi verið mjög meðvituð ákvörðun að fara þarna inn í þeim tilgangi að stela byssunum og skotfærunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka