Kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir karlmanni var hafnað í héraðsdómi í morgun, en maðurinn var handtekinn í fyrrakvöld í tengslum við aðgerðir lögreglunnar gegn vélhjólagengi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Fjórir af þeim 16 einstaklingum sem lögregla handtók í umfangsmiklum aðgerðum gegn mótorhjólasamtökunum Outlaws í fyrrakvöld voru í gærkvöldi leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir þeim.
Einn fjórmenninganna er Víðir Þorgeirsson, foringi Outlaws. Auk hans var krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur körlum og einni konu. Þrjú þeirra voru úrskurðuð í gæsluvarðhald í eina viku eða til 11. október, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Dómari tók sér hins vegar frest til morguns til að taka afstöðu til gæsluvarðhaldskröfu yfir Víði. En hann er nú frjáls ferða sinna, að því er fram kemur á vef RÚV.
Alls voru 16 menn handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar í fyrrakvöld gegn vélhjólagenginu Outlaws. Aðgerðirnar hófust klukkan 20 og stóðu fram yfir miðnætti. Lagt var hald á nokkra tugi gramma af sterkum fíkniefnum, stera, bruggtæki og bæði landa og gambra, að sögn lögreglu.