Lögreglan hefur staðfest að ráðist var í aðgerðirnar gegn vélhjólagenginu Outlaws, vegna þess að félagar í genginu höfðu undirbúið að ráðast inn á heimili lögreglumanna.
Í tilkynningu sem lögregla var að senda frá sér segir að tilefnið aðgerðanna, sem fólu í sér handtökur og húsleitir, hafi verið rökstuddur grunur lögreglu um fyrirætlanir meðlima vélhjólagengisins um hefndaraðgerðir gegn einstaka lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra.
Þrír sitja nú í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar, en í morgun hafnaði héraðsdómur kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir fjórða manninum. Sá úrskurður hefur verið kærður til Hæstaréttar.