Útlögum sýndar tennurnar

Mynd tekin þegar lögregla réðst gegn glæpasamtökum fyrir fáeinum árum …
Mynd tekin þegar lögregla réðst gegn glæpasamtökum fyrir fáeinum árum síðan. mbl.is/Júlíus

Umfangsmiklar aðgerðir lögreglu gegn samtökunum Outlaws voru ekki aðeins skilaboð út í samfélagið heldur einnig til þeirra manna sem vilja kenna sig við slík samtök. Lögreglan fylgist afar grannt með ferðum þeirra og hvenær samtökin funda. Þetta var í annað skipti á einum mánuði sem ráðist er gegn meðlimum Outlaws.

Allt að áttatíu lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum á miðvikudagskvöld, þar á meðal vopnaðir sérsveitarmenn, auk starfsmanna tollgæslunnar. Um var að ræða sameiginlegar aðgerðir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar í Árnessýslu. Farið var í sjö húsleitir og sextán manns teknir höndum. Flestir kenna sig við Outlaws og einhverjir þeirra voru handteknir í aðgerðum gegn sömu samtökum í síðasta mánuði. Í þeim aðgerðum fundust meðal annars skotvopn og sprengiefni, sömu gerðar og verktakar nota við vinnu sína.

Eins og komið hefur fram réðst lögreglan í aðgerðirnar þar sem rökstuddur grunur var um að meðlimir Outlaws hygðu á hefndir vegna aðgerða lögreglu í síðasta mánuði. Stóð til að ráðast gegn einstaka lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem nefnt er að glæpahópar hafi lögreglumenn í sigtinu.

Í mars síðastliðnum sagði Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, að glæpahópar hefðu mikinn áhuga á starfsmönnum lögreglu og tollgæslu. Þeir hafi meðal annars aflað sér upplýsinga um starfsstöðvar lögreglu og um lögreglumenn og fjölskyldur þeirra. Glæpahópar séu ennfremur tilbúnir að greiða mikið fyrir slíkar upplýsingar.

Meira farið fyrir Útlögum en Vítisenglum að undanförnu

Tiltölulega stutt er síðan umræðan um vélhjólasamtök hér á landi varð á hvers manns vörum. Síðan þá hefur komið í ljós að fæstir meðlimir slíkra gengja ferðast um á mótorfákum og því rangnefni að tala um vélhjólasamtök.

Í mars 2011 varð MC Iceland formlega Íslandsdeild Vítisengla (e. Hells Angels). Gerðist þá það sem varað hafði verið við, meðal annars af greiningardeild ríkislögreglustjóra. Í skýrslu greiningardeildarinnar var meðal annars á það bent, að „alls staðar þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið“.

Vítisenglar hafa hins vegar látið lítið fara fyrir sér að undanförnu, eða síðan dómsmáli á hendur þáverandi forseta Íslandsdeildarinnar og fleiri einstaklingum tengdum samtökunum lauk í Héraðsdómi Reykjaness. Í því máli voru allir sýknaðir af þátttöku í skipulögðu glæpastarfi, en þetta var í fyrsta skipti sem ákært var fyrir slíka háttsemi.

Einnig hefur Karl Steinar upplýst, að Ísland sé eina landið í heiminum sem Vítisenglar hafa beint félagsmönnum sínum frá. Gefin hafi verið út fyrirmæli þess efnis þar sem ljóst þykir að þeim verði vísað frá landinu og það sé óheppilegt í ímyndarherferð samtakanna.

En á meðan lítið fer fyrir íslensku Vítisenglunum skjóta Útlagarnir (e. Outlaws) alltaf upp kollinum öðru hverju. Fyrir réttu ári dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur tvo menn í þriggja og hálfs árs og þriggja ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og stórfellda líkamsárás. Mennirnir voru kenndir við samtökin Black Pistons – annar þeirra forseti samtakanna – sem hefðu tengsl við Outlaws í Noregi, og væru svonefndur stuðningsklúbbur.

Samtökin komust aftur í fjölmiðla einum mánuði eftir að ofangreindir menn voru dæmdir. Þá var reyndar upplýst að Black Pistons væru ekki til lengur því samtökin hefðu fengið fulla aðild að Outlaws og bæru því það nafn. Þeim áfanga virðist hafa verið fagnað með skotárás, sem átti sér stað í Bryggjuhverfinu í Reykjavík. Tveir menn voru dæmdir til refsingar vegna skotárásarinnar, fengu fjögurra ára og átján mánaða fangelsi. Lítið sem ekkert var þó fjallað um Outlaws við meðferð málsins fyrir dómi.

Reynt hefur verið að skilgreina einstaklinga sem vilja kenna sig við félagsskap sem þennan og á fundi um málefnið var vitnað í rannsókn þar sem kom fram að þar væri um að ræða menn sem höfðu flosnað upp úr námi, átt erfiðar heimilisaðstæður, margir höfðu framið lögbrot og í raun áttu þeir erfitt með að aðlagast hefðbundnu samfélagi. „Félagslegir lúserar tóku sig saman og mynduðu gengi þar sem gildum var snúið á haus, sá sem braut mest af sér var leiðtoginn og svalastur.“

Spyrnt við fótum en verður þróuninni snúið við?

Í sama mánuði og tilkynnt var um fulla aðild MC Iceland að Vítisenglum, þ.e. í mars 2011, samþykkti ríkisstjórnin að veita fjármuni til átaks lögreglunnar til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Fyrr á árinu var samþykkt að framlengja verkefnið og sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra við það tækifæri að ljóst væri að ástandið væri mun verra ef ekki hefði verið farið í átakið. „Þetta hefur tekist mjög vel og samtökin ekki eflst á meðan á átakinu hefur staðið.“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að hann hefði  verið upplýstur um aðgerðir lögreglu áður en í þær var ráðist. Mikil samstaða sé innan kerfisins alls um að vinna bug á því meini sem skipulögð glæpasamtök eru. Til marks um það má nefna að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis efndi til formlegs samstarfs til að ná utan um skipulagða glæpastarfsemi. Það segir Ögmundur að sé mjög þarft og skipti verulegu máli.

Eins og áður segir hafði greiningardeild ríkislögreglustjóra varað við þessari þróun síðan deildin var sett á fót. Í síðustu opinberu skýrslu deildarinnar er vísað til atburða sem gerðust í fyrra og sagt að þeir séu til marks um aukna hörku í íslenskum undirheimum. „Greina hefur mátt þessa þróun hin síðustu ár og tæpast er ástæða til að ætla að henni verði snúið við þrátt fyrir snörp og fagmannleg viðbrögð lögreglu í þeim málum sem hér hefur verið vikið að.“

Auðséð er á þeim aðgerðum sem lögregla hefur farið í vegna Outlaws að þær styrkja það sem fram kemur í skýrslum greiningardeildarinnar. Þar hefur til dæmis verið varað við því að félagar í glæpahópum gangi um vopnaðir og hafa lagt áherslu á að komast yfir vopn.

Hvort aðgerðir lögreglu núna verði til þess að draga tennurnar úr samtökunum Outlaws verður að koma í ljós en ljóst er að lögregla sýndi þeim tennurnar með gríðarlega umfangsmiklum aðgerðum og sérlega vel búnum, vopnum búnum, lögreglumönnum sem greinilega voru tilbúnir í átök við meðlimi Outlaws. Þá má ekki gleyma því að önnur glæpasamtök hafa horft til Íslands og því er spurning hvort greiningardeild ríkislögreglustjóra hafi rétt fyrir sér þegar hún segir að þessari þróun verði ekki snúið við.

Lögreglumenn með karlmann í haldi. Myndin tengist aðeins óbeint.
Lögreglumenn með karlmann í haldi. Myndin tengist aðeins óbeint. mbl.is/Eggert
Merki Vítisengla á félagsheimili þeirra í Hafnarfirði.
Merki Vítisengla á félagsheimili þeirra í Hafnarfirði.
Sérsveit lögreglu við félagsheimili Outlaws í Hafnarfirði.
Sérsveit lögreglu við félagsheimili Outlaws í Hafnarfirði. mbl.is
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að …
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að íslensku samtökin séu sprottin þaðan. Mynd/outlawsmc.no
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka