Útlögum sýndar tennurnar

Mynd tekin þegar lögregla réðst gegn glæpasamtökum fyrir fáeinum árum …
Mynd tekin þegar lögregla réðst gegn glæpasamtökum fyrir fáeinum árum síðan. mbl.is/Júlíus

Um­fangs­mikl­ar aðgerðir lög­reglu gegn sam­tök­un­um Outlaws voru ekki aðeins skila­boð út í sam­fé­lagið held­ur einnig til þeirra manna sem vilja kenna sig við slík sam­tök. Lög­regl­an fylg­ist afar grannt með ferðum þeirra og hvenær sam­tök­in funda. Þetta var í annað skipti á ein­um mánuði sem ráðist er gegn meðlim­um Outlaws.

Allt að átta­tíu lög­reglu­menn tóku þátt í aðgerðunum á miðviku­dags­kvöld, þar á meðal vopnaðir sér­sveit­ar­menn, auk starfs­manna toll­gæsl­unn­ar. Um var að ræða sam­eig­in­leg­ar aðgerðir lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, embætt­is rík­is­lög­reglu­stjóra, lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um og lög­regl­unn­ar í Árnes­sýslu. Farið var í sjö hús­leit­ir og sex­tán manns tekn­ir hönd­um. Flest­ir kenna sig við Outlaws og ein­hverj­ir þeirra voru hand­tekn­ir í aðgerðum gegn sömu sam­tök­um í síðasta mánuði. Í þeim aðgerðum fund­ust meðal ann­ars skot­vopn og sprengi­efni, sömu gerðar og verk­tak­ar nota við vinnu sína.

Eins og komið hef­ur fram réðst lög­regl­an í aðgerðirn­ar þar sem rök­studd­ur grun­ur var um að meðlim­ir Outlaws hygðu á hefnd­ir vegna aðgerða lög­reglu í síðasta mánuði. Stóð til að ráðast gegn ein­staka lög­reglu­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem nefnt er að glæpa­hóp­ar hafi lög­reglu­menn í sigt­inu.

Í mars síðastliðnum sagði Karl Stein­ar Vals­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­reglu höfuðborg­ar­svæðis­ins, að glæpa­hóp­ar hefðu mik­inn áhuga á starfs­mönn­um lög­reglu og toll­gæslu. Þeir hafi meðal ann­ars aflað sér upp­lýs­inga um starfs­stöðvar lög­reglu og um lög­reglu­menn og fjöl­skyld­ur þeirra. Glæpa­hóp­ar séu enn­frem­ur til­bún­ir að greiða mikið fyr­ir slík­ar upp­lýs­ing­ar.

Meira farið fyr­ir Útlög­um en Vít­isengl­um að und­an­förnu

Til­tölu­lega stutt er síðan umræðan um vél­hjóla­sam­tök hér á landi varð á hvers manns vör­um. Síðan þá hef­ur komið í ljós að fæst­ir meðlim­ir slíkra gengja ferðast um á mótor­fák­um og því rang­nefni að tala um vél­hjóla­sam­tök.

Í mars 2011 varð MC Ice­land form­lega Íslands­deild Vít­isengla (e. Hells Ang­els). Gerðist þá það sem varað hafði verið við, meðal ann­ars af grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra. Í skýrslu grein­ing­ar­deild­ar­inn­ar var meðal ann­ars á það bent, að „alls staðar þar sem Hells Ang­els hafa náð að skjóta rót­um hef­ur auk­in skipu­lögð glæp­a­starf­semi fylgt í kjöl­farið“.

Vít­isengl­ar hafa hins veg­ar látið lítið fara fyr­ir sér að und­an­förnu, eða síðan dóms­máli á hend­ur þáver­andi for­seta Íslands­deild­ar­inn­ar og fleiri ein­stak­ling­um tengd­um sam­tök­un­um lauk í Héraðsdómi Reykja­ness. Í því máli voru all­ir sýknaðir af þátt­töku í skipu­lögðu glæp­a­starfi, en þetta var í fyrsta skipti sem ákært var fyr­ir slíka hátt­semi.

Einnig hef­ur Karl Stein­ar upp­lýst, að Ísland sé eina landið í heim­in­um sem Vít­isengl­ar hafa beint fé­lags­mönn­um sín­um frá. Gef­in hafi verið út fyr­ir­mæli þess efn­is þar sem ljóst þykir að þeim verði vísað frá land­inu og það sé óheppi­legt í ímynd­ar­her­ferð sam­tak­anna.

En á meðan lítið fer fyr­ir ís­lensku Vít­isengl­un­um skjóta Útlag­arn­ir (e. Outlaws) alltaf upp koll­in­um öðru hverju. Fyr­ir réttu ári dæmdi Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur tvo menn í þriggja og hálfs árs og þriggja ára fang­elsi fyr­ir frels­is­svipt­ingu og stór­fellda lík­ams­árás. Menn­irn­ir voru kennd­ir við sam­tök­in Black Pist­ons – ann­ar þeirra for­seti sam­tak­anna – sem hefðu tengsl við Outlaws í Nor­egi, og væru svo­nefnd­ur stuðnings­klúbb­ur.

Sam­tök­in komust aft­ur í fjöl­miðla ein­um mánuði eft­ir að of­an­greind­ir menn voru dæmd­ir. Þá var reynd­ar upp­lýst að Black Pist­ons væru ekki til leng­ur því sam­tök­in hefðu fengið fulla aðild að Outlaws og bæru því það nafn. Þeim áfanga virðist hafa verið fagnað með skotárás, sem átti sér stað í Bryggju­hverf­inu í Reykja­vík. Tveir menn voru dæmd­ir til refs­ing­ar vegna skotárás­ar­inn­ar, fengu fjög­urra ára og átján mánaða fang­elsi. Lítið sem ekk­ert var þó fjallað um Outlaws við meðferð máls­ins fyr­ir dómi.

Reynt hef­ur verið að skil­greina ein­stak­linga sem vilja kenna sig við fé­lags­skap sem þenn­an og á fundi um mál­efnið var vitnað í rann­sókn þar sem kom fram að þar væri um að ræða menn sem höfðu flosnað upp úr námi, átt erfiðar heim­ilisaðstæður, marg­ir höfðu framið lög­brot og í raun áttu þeir erfitt með að aðlag­ast hefðbundnu sam­fé­lagi. „Fé­lags­leg­ir lúser­ar tóku sig sam­an og mynduðu gengi þar sem gild­um var snúið á haus, sá sem braut mest af sér var leiðtog­inn og sval­ast­ur.“

Spyrnt við fót­um en verður þró­un­inni snúið við?

Í sama mánuði og til­kynnt var um fulla aðild MC Ice­land að Vít­isengl­um, þ.e. í mars 2011, samþykkti rík­is­stjórn­in að veita fjár­muni til átaks lög­regl­unn­ar til að vinna gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Fyrr á ár­inu var samþykkt að fram­lengja verk­efnið og sagði Ögmund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráðherra við það tæki­færi að ljóst væri að ástandið væri mun verra ef ekki hefði verið farið í átakið. „Þetta hef­ur tek­ist mjög vel og sam­tök­in ekki eflst á meðan á átak­inu hef­ur staðið.“

Ögmund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráðherra sagði í sam­tali við mbl.is í gær­kvöldi að hann hefði  verið upp­lýst­ur um aðgerðir lög­reglu áður en í þær var ráðist. Mik­il samstaða sé inn­an kerf­is­ins alls um að vinna bug á því meini sem skipu­lögð glæpa­sam­tök eru. Til marks um það má nefna að alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is efndi til form­legs sam­starfs til að ná utan um skipu­lagða glæp­a­starf­semi. Það seg­ir Ögmund­ur að sé mjög þarft og skipti veru­legu máli.

Eins og áður seg­ir hafði grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra varað við þess­ari þróun síðan deild­in var sett á fót. Í síðustu op­in­beru skýrslu deild­ar­inn­ar er vísað til at­b­urða sem gerðust í fyrra og sagt að þeir séu til marks um aukna hörku í ís­lensk­um und­ir­heim­um. „Greina hef­ur mátt þessa þróun hin síðustu ár og tæp­ast er ástæða til að ætla að henni verði snúið við þrátt fyr­ir snörp og fag­mann­leg viðbrögð lög­reglu í þeim mál­um sem hér hef­ur verið vikið að.“

Auðséð er á þeim aðgerðum sem lög­regla hef­ur farið í vegna Outlaws að þær styrkja það sem fram kem­ur í skýrsl­um grein­ing­ar­deild­ar­inn­ar. Þar hef­ur til dæm­is verið varað við því að fé­lag­ar í glæpa­hóp­um gangi um vopnaðir og hafa lagt áherslu á að kom­ast yfir vopn.

Hvort aðgerðir lög­reglu núna verði til þess að draga tenn­urn­ar úr sam­tök­un­um Outlaws verður að koma í ljós en ljóst er að lög­regla sýndi þeim tenn­urn­ar með gríðarlega um­fangs­mikl­um aðgerðum og sér­lega vel bún­um, vopn­um bún­um, lög­reglu­mönn­um sem greini­lega voru til­bún­ir í átök við meðlimi Outlaws. Þá má ekki gleyma því að önn­ur glæpa­sam­tök hafa horft til Íslands og því er spurn­ing hvort grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra hafi rétt fyr­ir sér þegar hún seg­ir að þess­ari þróun verði ekki snúið við.

Lögreglumenn með karlmann í haldi. Myndin tengist aðeins óbeint.
Lög­reglu­menn með karl­mann í haldi. Mynd­in teng­ist aðeins óbeint. mbl.is/​Eggert
Merki Vítisengla á félagsheimili þeirra í Hafnarfirði.
Merki Vít­isengla á fé­lags­heim­ili þeirra í Hafnar­f­irði.
Sérsveit lögreglu við félagsheimili Outlaws í Hafnarfirði.
Sér­sveit lög­reglu við fé­lags­heim­ili Outlaws í Hafnar­f­irði. mbl.is
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að …
Skjá­skot af vefsvæði norsku vél­hjóla­sam­tak­anna Outlaws, en talið er að ís­lensku sam­tök­in séu sprott­in þaðan. Mynd/​outlaws­mc.no
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert