Outlaws-samtökin í rúmt ár á Íslandi

Mynd/outlawsmc.no

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að þrír félagar í Outlaws-vélhjólagenginu sæti gæsluvarðhaldi til 11. október. Rétturinn staðfesti einnig þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna kröfu um gæsluvarðhald yfir Víði Þorgeirssyni, leiðtoga Outlaws.

Lögreglan segir að tilefni aðgerðanna gegn Outlaws hafi verið rökstuddur grunur um að félagar í vélhjólagenginu áformuðu hefndaraðgerðir gegn einstökum lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra. Lögreglan lagði hald á vopn, fíkniefni og þýfi í aðgerðunum.

Víðir Þorgeirsson sagði við Morgunblaðið um aðgerðir lögreglunnar: „Það angrar mig mikið að fólk trúi því að við höfum ætlað að ráðast á konur og börn. Þetta er algjör fjarstæða að þetta hafi verið eitthvað sem átti að gera. Við erum sjálfir margir fjölskyldumenn.“

Víðir vildi ekki gefa neitt upp um starfsemi Outlaws annað en að þetta væri alþjóðlegur mótorhjólaklúbbur og bræðralag.

Stofnuð árið 1935

Samtökin Outlaws voru stofnuð árið 1935 á Matilda bar í McCook rétt fyrir utan Chicago. Árið 1950 breyttist merki þeirra úr vængjuðu mótorhjóli í hauskúpu og á sama tíma jukust umsvif þeirra í Bandaríkjunum.

Samkvæmt heimasíðu Outlaws teygja samtökin anga sína um allan heim. Mótorhjólagengið er starfrækt víðsvegar í Bandaríkjunum, fjölda Evrópulanda, Ástralíu auk Asíulandanna Taílands og Japans. Margir meðlimir Outlaws eru þekktir brotamenn og hafa verið dæmdir m.a. fyrir vörslu fíkniefna og vopna og ofbeldisverk.

Í maí 2011 fékk hópur íslenskra vélhjólamanna inngöngu í fjölskyldu vélhjólagengisins Outlaws undir nafninu Black Pistons. Á heimasíðu samtakanna var staða þeirra tilgreind sem „stuðningsklúbbur“ en skömmu síðar fékk hópurinn fulla aðild að Outlaws.

Skipulögð glæpastarfsemi

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem birtist 2009 um vélhjólagengi, er einkum fjallað um Hells Angels, eða Vítisengla, sem einnig hafa verið með starfsemi hér. Þar segir að alls staðar þar sem þessi samtök hafi náð að skjóta rótum hafi aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert