Stökk með fallhlíf frá svifvæng

Í fyrsta sinn á Íslandi gerðist það í vikunni að tveir menn hentu sér fram af fjalli í svifvæng, annar þeirra losaði sig frá, féll í frjálsu falli og sveif til jarðar í fallhlíf. Gísli Steinar Jóhannesson, svifvængjakennari hjá paragliding.is, segir þetta hafa verið algjörlega einstakt. „Þetta hefur aldrei verið gert áður á Íslandi, og það eru kannski innan við hundrað manns í heiminum sem hafa gert þetta,“ segir hann.

Fólk á tjaldstæði öskraði

Það var hinn bandaríski Eric Jonathan Hill sem valdi að svífa svona til jarðar, en þeir stukku fram af Laugarfelli við Laugarvatn. Eric er á ferðalagi til allra landa heimsins í þeim tilgangi að setja heimsmet.

„Ég gerði það sem aldrei hefur verið gert áður á Íslandi, og ég aldrei áður gert í mínu lífi, ég stökk með fallhlíf frá svifvæng, það var ótrúleg reynsla!“ segir Eric. „Aðallega naut ég fólksins hér, hér er frábært fólk, og ég mun örugglega koma aftur.“

 Gísli segir að markmiðið hafi verið að komast nógu hátt. Þeir komust í 150 metra hæð en lágmarkið var 100 metrar. Gísli segir það hafi verið taugatrekkjandi þegar Hill sleit sig lausan. „Þetta gerðist allt mjög hægt, ég var ekki viss um að þetta tækist og vissi það í raun ekki fyrr en ég sá fallhlífina opnast,“ segir hann og bætir við: „Fólk sem var á tjaldstæðinu vissi ekkert hvað var í gangi og margir öskruðu þegar þeir sáu manninn falla.“

Vissum að þetta væri hægt

Gísli segir að ástæðan fyrir þessu hafi verið einföld. „Við vissum að þetta væri hægt! Þetta var rosalegt, alveg rosa gaman. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því.“ Þeir fóru ekki af stað fyrr en eftir góðan undirbúning og voru búnir að æfa þetta vel á jörðu áður en þeir lögðu í fjallið. Einnig var þetta áskorun fyrir Gísla, því hann þurfti eftir stökkið hjá Hill einn að stjórna tveggja manna svifvæng sem erfitt er að stýra þegar helmingur þyngdarinnar er farinn.

Hill, sem er mikill ævintýramaður, er í heimsreisu en hann ætlar að ferðast til allra landa heims og stefnir á heimsmet. Markmiðið er að fara til allra landanna á sem skemmstum tíma. Skoða má allt um ferðir hans á gowitheric.com. Myndband af stökkinu má sjá á mbl.is.

Frétt mbl.is: Ferðalögin eiginlega orðin fíkn

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka