Fékk hugmynd að miðunarbúnaði

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GNÁ.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GNÁ. Af vef Landhelgisgæslunnar

Óskar Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, fékk hugmyndina að nýjum miðunarbúnaði sem notaður var við leit Landhelgisgæslunnar í gær. Hann segir búnaðinn vera einstakan og mikla bót fyrir björgunarstarf.

Nýr miðunarbúnaður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar var tekinn í notkun í gær en hann hafði verið í um það bil tvö ár í þróun. Hugmyndina fékk Óskar Valtýsson, fjarskiptastjóri hjá Landsvirkjun, fyrir tveimur árum síðan þegar hann fylgdist með umfangsmikilli leit að ferðamanni sem týnst hafði uppi á jökli en um 300 manns komu að leitinni.

„Í nóvember 2011 var verið að leita að sænskum ferðamanni sem menn héldu að væri á Fimmvörðuhálsi en í ljós kom svo að hann var allt annars staðar eða á Sólheimajökli. Leitin stóð yfir frá miðvikudagskvöldi til laugardags og ég fylgdist náið með fréttaflutningi af leitinni,“ segir Óskar. „Ég hjó eftir því að hann hafði hringt í neyðarlínuna og látið vita að hann væri í vanda staddur þannig að ég hélt að hægt væri að miða út staðsetningu hans út frá þessu símtali. Þegar ég heyrði síðan daginn eftir að enn væri verið að leita að honum þá grennslaðist ég fyrir um málið og komst að því að enginn slíkur miðunarbúnaður væri fyrir hendi.“

Gáfu vinnu sína

Í kjölfarið lagðist Óskar í mikla rannsóknarvinnu og setti saman hugmynd að þróun nýs kerfis. „Ég fór á fund með tveimur þingmönnum sem eru jafnframt björgunarsveitarmenn og í framhaldinu fór ég á fund með umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég kynnti þessa tillögu. Þá var ákveðið að láta á það reyna að kanna hvort hægt væri að búa til slíkt kerfi. Ég fór því á stúfana að leita að mannskap sem hefði kunnáttu til þessa verks og tók auk þess þátt í að hanna hluta af rafeindabúnaði kerfisins. Við fengum styrk til þess að standa straum af efniskostnaði en öll vinna mín og hugbúnaðarfyrirtækisins Raggar er gefin.“

Áhugi erlendis frá

Óskar segir það hafa verið flókið verk að þróa kerfi sem þetta og það útskýri að vissu leyti af hverju kerfi sem þetta hafi ekki komið til sögunnar fyrr en nú. Þá telur hann að þessi búnaður sé einstakur í sinni röð. „Ég byrjaði á því að leita á netinu eftir sambærilegu kerfi og fann ekkert í líkingu við þetta. Það var fyrirtæki í Svíþjóð sem var með álíka kerfi í þróun en það er nú farið á hausinn og ekkert kom út úr því. Þetta er því svolítið einstakt kerfi og útlendingar hafa sýnt því mikinn áhuga og mun Rögg halda áfram að koma því á framfæri erlendis þegar vinnan við þróun kerfisins er fullkláruð sem verður vonandi fyrir árslok.“

Mikil bót fyrir leitarstarf

„Samkvæmt stærðfræðilegum útreikningum þá getur kerfið staðsett menn á 60x60 metra svæði, líkt og á handboltavelli, sem er mjög mikil þrenging á leitarsvæði. Við höfum prófað þetta í nánast hvernig umhverfi sem er t.d. á jöklum og í jökulsprungum og árangurinn er góður. Þetta er því mikil bót fyrir leitarstarf. Þá er meginkosturinn sá að búnaðurinn beinir merkinu beint niður úr þyrlunni en ekki út til hliðanna og þannig er hægt að ná ofan í gil og skorninga sem er í raun mesta hindrunin fyrir því að menn geti notað farsíma á hálendinu því það verður að vera sjónlína á milli sendistöðvarinnar og farsímans til þess að síminn virki,“ segir Óskar.

Styrktaraðilar verkefnisins eru:

<span><span>Tryggingarfélagið VÍS</span></span> <span><span>Tryggingamiðstöðin - TM</span></span> <span><span>Tryggingarfélagið Vörður</span></span> <span><span>Héðinn hf.</span></span> <span><span>Landsvirkjun.</span></span>

Gæslan miðaði síma mannsins út

Óskar Halldór Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar.
Óskar Halldór Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar.
Þessi mynd sýnir vel hvernig miðunarbúnaðurinn í þyrlunni nær til …
Þessi mynd sýnir vel hvernig miðunarbúnaðurinn í þyrlunni nær til farsíma í gilskornu umhverfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert