Sendir heim með fyrstu vél

Húsakynni Devils Choice á Íslandi eru í Skeiðarási 3 í …
Húsakynni Devils Choice á Íslandi eru í Skeiðarási 3 í Garðabæ og þar var klúbburinn einnig á meðan hann hét Hog Riders. mbl.is

Sex norskir liðsmenn vélhjólaklúbbsins Devils Choice verða sendir heim til Noregs með fyrstu vél þangað eða nú skömmu fyrir klukkan átta, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þeir voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær.

Þrír félagar í  Devils Choice fóru aftur til Noregs í gær eftir að hafa verið vísað frá landi af yfirvöldum. Frávísunin byggðist á hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra en Devils Choice er opinber stuðningsklúbbur Vítisengla, Hells Angels, sem lögregla hefur ítrekað bent á að tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Sex konur voru með mönnunum í för en þeim var sleppt að lokinni skýrslutöku. Hópurinn flaug hingað frá Ósló í Noregi og var samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á leið í samkvæmi á vegum Devils Choice á Íslandi.

Í grein Rúnars Pálmasonar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að lögregla á Íslandi hefur árum saman barist gegn því að vélhjólagengi á borð við Vítisengla og Outlaws nái fótfestu hér og náð ágætum árangri. Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að undanfarið hafi ekki verið mikil starfsemi í fyrrnefndum vélhjólagengjum og Devils Choice hafi fram til þessa ekki verið áberandi hér á landi. Aðspurður segir hann að það geti verið að fyrirhuguð heimsókn Norðmannanna sé til marks um að aukið líf sé að færast í starfsemi klúbbsins.

Starfa yfirleitt ekki sjálfstætt

Hjá Vítisenglum á Íslandi hefur ríkt forystukreppa a.m.k frá því að Einar Marteinsson, þá forseti Vítisengla á Íslandi, var hnepptur í gæsluvarðhald í tengslum við sérstaklega hættulega líkamsárás gegn konu í Hafnarfirði árið 2011. Einar var sýknaður af aðild en var settur af sem forseti í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er hann aftur tekinn við forystuhlutverki í klúbbnum.

Karl Steinar segir að ekki sé hægt að segja til um hvort heimsókn norskra félaga í Devils Choice hingað til lands muni renna styrkari stoðum undir starfsemi Vítisengla. Staðreyndin sé sú að þessir stuðningshópar hafa ekki starfað sjálfstætt heldur hafi verið í tengslum við móðurfélagið, Vítisengla, segir Karl.

Devils Choice á Íslandi hétu Hog Riders þar til nafninu var breytt árið 2011.

Svipuð þróun hefur átt sér stað í Danmörku og Noregi en í báðum löndunum hafa ýmsir stuðningsklúbbar Vítisengla kastað eldra nafni og tekið upp nafnið Devils Choice í staðinn. Þetta gerðist í Danmörku árið 2010 og í Noregi nú í haust þegar tíu norskir klúbbar skiptu um nafn. Þeirra á meðal voru þrír klúbbar sem áður gengu undir nafninu Hog Riders og störfuðu í Björgvin, Florø og Stafangri.

Í norskum fjölmiðlum kom fram að lögregla í Noregi liti svo á að þessi breyting myndi styrkja starfsemi Vítisengla.

Devils Choice starfar einnig í Danmörku og fer síður en svo í grafgötur með stuðning sinn við Vítisengla. Á vef klúbbsins kemur skýrt fram að Devils Choice sé „opinber stuðningsklúbbur Vítisengla.“

Á vef íslenska klúbbsins er ekkert fjallað um tengslin við Vítisengla en tengslin við Danmörku og Noreg fara ekkert á milli mála. Merkið er hið sama og þar er tengill á vef danska Devils Choice-klúbbsins.

Devils Choice
Devils Choice mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert