„Ástandið hefur ekkert batnað“

Það verður í nógu að snúast hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir páskana.
Það verður í nógu að snúast hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir páskana. mbl.is/Ernir

„Ástandið hefur ekkert batnað hjá okkur. Það er að fjölga í öllum hópum sem koma til okkar og þá meira að segja í hópi unga fólksins,“ segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, í samtali við mbl.is.

Páskarnir eru á næsta leiti og á Ragnhildur von á því að á annað þúsund manns muni leita sér aðstoðar hjá Mæðrastyrksnefndinni.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, gerir ráð fyrir því að að minnsta kosti 600 fjölskyldur muni leita til þeirra fyrir páskana. „Ástandið er mjög dapurt. Það verður bara að segjast eins og er,“ segir hún.

Fólk kaupi eitt aukapáskaegg

Það tíðkast á flestum heimilum landsins að fá páskaegg um páskana en hins vegar eru ekki allir sem hafa efni á því að gefa börnum sínum egg. Fjölskylduhjálp hvetur fólk til að kaupa eitt aukapáskaegg svo gleðja megi börn sem minna mega sín um páskana.

„Því miður eru það ekki öll börn sem fá páskaegg. Þó svo að við séum að selja tvær milljónir eggja á ári, þá er stór hópur þarna úti sem verður að sætta sig við litlu hænueggin,“ segir Ásgerður.

Starfsstöðvar Fjölskylduhjálpar Íslands eru tvær. Önnur í Iðufelli 14 í Reykjavík og hin að Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ, en þar er tekið á móti páskaeggjum.

Hún nefnir að Fjölskylduhjálp verði ekki með sérstaka páskaaðstoð, líkt og jólaaðstoð fyrir jólin, í ár en þó verði úthlutunin aðeins veglegri en venjulega. „Við vonumst bara til að maturinn okkar dugi.“

Hafa ekki efni á fermingargjöfum

Töluvert hefur verið um það að fólk hafi leitað til Fjölskylduhjálpar vegna aðstoðar við fermingar, að sögn Ásgerðar. „Við aðstoðuðum yfir sextíu fjölskyldur við að halda fermingarveislur í ár,“ segir hún.

Til að mynda hafi Vodafone afhent þeim fimm Samsung Galaxy síma til að gefa foreldrum sem hafa ekki fjárráð til að kaupa fermingargjafir handa börnum sínum.

„Við höfðum auðvitað þurft að hafa miklu fleiri slíkar gjafir. Það eru margir foreldrar sem hreinlega sögðu að þeir væru ekki farnir að huga að fermingargjöfum handa börnum sínum. Það væru bara engir peningar til.“

Hún vill þó koma því á framfæri að Íslendingar séu heilt yfir afar hjálpsamir. „Þegar falast er eftir aðstoð er ekki hægt að kvarta undan því að þjóðin er mjög gjafmild. Við þurfum bara að koma skilaboðunum áleiðis til fólksins að þörfin sé svona eins og hún er,“ segir Ásgerður.

Ásóknin mikil fyrir páska

Ragnhildur hjá Mæðrastyrksnefnd segir að ásóknin til þeirra sé mjög mikil fyrir páskana í ár. „Við erum að undirbúa úthlutunina sem óðast og reiknum við ekki með færri heldur en í fyrra, en þá voru á annað þúsund manns sem komu og leituðu aðstoðar hjá okkur,“ segir hún.

„Við verðum með góðan og hollan mat, svo sem kjöt, kartöflur, ávexti, fisk, skyr og mjólk. Bara þennan mat sem er nauðsynlegt að hafa sér til lífsviðurværis.“

Ástandið hefur síst batnað, að sögn Ragnhildar, og tekur hún sérstaklega eftir aukningu í hópi ungs fólks, þá sér í lagi námsmanna.

„Ástandið hefur kannski batnað hjá sumum, en hjá öðrum gerir það ekki. Það virðist sem gjörðir ríkisstjórnarinnar nái ekki til þess fólks sem kemur til okkar. Við sjáum það að minnsta kosti ekki.“

mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert