Öflugur línuhraðall tekinn í notkun

Meðal þeirra sem viðstaddir voru var biskup Íslands, Agnes M. …
Meðal þeirra sem viðstaddir voru var biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nýi línuhraðallinn á Landspítala var formlega tekinn í notkun í dag að loknu nokkurra mánaða reynslutímabili. Hann leysti af hólmi gamalt tæki sem hafði gert sitt gagn en svaraði ekki lengur þeim kröfum sem gera þarf til slíkra tækja nú til dags. Gamla tækinu hefur verið fargað.

Línuhraðallinn er stórt og dýrt tæki og gjafir gerðu kleift að ráðast í kaupin, segir í frétt frá Landspítalanum. Samkvæmt samningi um kaup á línuhraðli, með eftirlits- og skráningarkerfi og takmörkuðu en sérhæfðu geislaáætlanakerfi, var kaupverð um 450 milljónir króna. Þjóðkirkjan var ötul í söfnunarátaki sem farið var í til tækjakaupanna, einnig Blái naglinn og fjöldi annarra félagasamtaka og einstaklinga. Full ástæða er til að þakka öllum þeim sem studdu þessi tækjakaup.

Geislameðferð gegnir veigamiklu hlutverki í meðferð krabbameina.  Áætlað er að þriðji hver einstaklingur í vestrænum þjóðfélögum greinist með krabbamein á ævi sinni og þurfa um 50% þeirra á geislameðferð að halda.  Á árinu 2013 komu meira en 600 sjúklingar til geislameðferðar á Landspítala og hefur þeim sem fara í slíka meðferð hér á landi fjölgað ár frá ári. Við geislameðferð og undirbúning hennar vinna saman ólíkar starfsstéttir að sérhæfðum verkum m.a. læknar, eðlisfræðingar, hjúkrunarfræðingar og geislafræðingar, segir í frétt Landspítalans.

Fyrsti línuhraðallinn keyptur árið 1987

Línuhraðalar hafa gegnt stóru hlutverki í geislameðferð frá miðri síðustu öld og hafa á undanförnum árum orðið veigamiklar framfarir í tækni þeirra hvað varðar nákvæmni og öryggi.  Fyrsti línuhraðall Íslendinga var keyptur til landsins árið 1987 eftir söfnun á vegum Lionshreyfingarinnar og þegar sérhæfð aðstaða skapaðist fyrir slíkt tæki í K-byggingu Landspítala. Nú eru tvö slík tæki í notkun í K-byggingu, nýja tækið sem nú er fagnað og eldra tæki sem keypt var árið 2004.

Samhliða tækniframförum í geislameðferð hafa orðið mikilvægar framfarir í greiningu krabbameina sem oft gefa betri kost en áður á læknandi meðferð á fyrri stigum í þróun sjúkdóms.  Þekking manna á áhrifum geislunar á krabbameinsæxli og einnig á aðliggjandi heilbrigðan vef hefur aukist.  Nú er í mörgum tilvikum unnt að beita geislalækningum með auknum árangri og um leið með minni aukaverkunum.  Ljóst er að þessi þróun heldur áfram og er mikilvægt að íslenskt heilbrigðiskerfi eigi kost á að vera með á þeirri vegferð.     

Jafnari og betri geisladreifing

Nýja tækið gefur kost á umtalsvert nákvæmari innstillingu á geisla gegn meðferðarsvæði með myndgerðarbúnaði sem gefur aukna möguleika á myndstýrðri meðferð (Image Guided Radiation Therapy). Með tækinu er unnt að gefa snúningsmeðferð (Rapidarc) sem gefur kost á jafnari og betri geisladreifingu í líkamsvefjum en áður var unnt að bjóða upp á.  Einnig skapast möguleiki á öndunarstýrðri meðferð (respiratory gating) og hnitamiðaðri geislun (stereotactic radiation). Reyndar þarf að fylgja fjárfestingu í nýja tækinu eftir með frekari þróun búnaðar sem styður við þær framfarir sem hér hafa verið nefndar.  Um er að ræða tæknilega möguleika sem samkvæmt uppgjöri á árangri í geislameðferð hjá stærri deildum meðal fjölmennari þjóða skila bættum árangri í geislameðferð krabbameinssjúklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert