Rannsókn hafin á banaslysi íslenska piltsins

Terra Mitica-skemmtigarðurinn er vinsæll meðal ferðamanna á Spáni.
Terra Mitica-skemmtigarðurinn er vinsæll meðal ferðamanna á Spáni.

„Fólk er skelkað yfir þessu og ofsalega dapurt,“ segir Kristín Tryggvadóttir, fararstjóri á Benidorm, um hörmulega slysið í Terra Mítica skemmtigarðinum í gær þar sem 18 ára íslenskur piltur lét lífið.

Pilturinn féll úr rússíbananum Inferno, sem var byggður árið 2007 og er nýjasta tæki garðsins, og var í kjölfarið fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Rússíbaninn ferðast á rúmlega 90 kílómetra hraða á klukkustund og snýr farþegum í 360 gráður á ferðalaginu.

Skemmtigarðurinn var áfram opinn gestum eftir slysið í gær og opnaður að venju í morgun. Rússíbananum Inferno hefur þó verið lokað þar til rannsókn hefur verið lokið, en lögreglan í Benidorm hefur þegar hafið rannsókn á slysinu, sem varð um klukkan hálf-fimm í gær.

Kristín hefur verið fararstjóri í 17 ár og hefur farið með fjölda Íslendinga í garðinn frá því hann var opnaður árið 2000. Hún segir reynslu sína af garðinum hafa verið afar góða og að slys sem þetta komi henni í opna skjöldu. „Ég held að garðurinn uppfylli öll öryggisatriði, en þarna koma inn hundruð, ef ekki þúsundir, gesta á dag,“ segir Kristín.

Í yfirlýsingu Terra Mítica vegna slyssins segir að verkreglum garðsins vegna öryggisráðstafana hafi verið fylgt og að orsök slyssins sé ókunn á þessu stigi málsins. Garðurinn harmar slysið og sendir fjölskyldu piltsins samúðarkveðjur.

Utanríkisráðuneytið hefur verið í samskiptum við fjölskyldu piltsins og vinnur nú að næstu skrefum málsins, að sögn Urðar Gunnarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins.

Frétt mbl.is: Staðfest að pilturinn var íslenskur

Frétt mbl.is: Íslensk­ur pilt­ur sagður lát­inn

Hér að neðan má sjá hvernig rússíbani Inferno er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert