Biðu eftir sjúkrabíl í 20-25 mínútur

Séð yfir skemmtigarðinn Terra Mítica við Benidorm á Spáni.
Séð yfir skemmtigarðinn Terra Mítica við Benidorm á Spáni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar og stjúpforeldrar Andra Freys Sveinssonar, piltsins sem lést af slysförum á Spáni á mánudag, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna slyssins. Þar segir m.a. að Andri Freyr hafi látið lífið inni í skemmtigarðinum og aldrei náð á sjúkrahús. Biðin var löng eftir sjúkrabíl, því enginn slíkur var í garðinum.

Með yfirlýsingunni vill fjölskyldan koma réttri atburðarás á hreint, en rangfærslur hafa verið spænskum fjölmiðlum og um leið íslenskum, m.a. þess efnis að Andri Freyr hafi látist af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Norskur læknir veitti fyrstu hjálp

Upphaflega ætlaði fjölskyldan að dvelja á Spáni í 28 daga. Á sjöunda degi var farið í skemmtigarðinn Terra Mítica rétt hjá Benidorm, og var öll fjölskyldan búin að eyða deginum í garðinum þegar slysið varð síðdegis í rússíbananum Inferno.

Andri Freyr sat aftast í tækinu ásamt vini sínum og yngri systur. „Í lok ferðar, í ca. 15 metra hæð, gefa sig öll öryggistæki fyrir sætið og hann fellur úr tækinu,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar. Þannig vildi til að norskur læknir var í tækinu og veitti hann fyrstu hjálp á staðnum, ásamt starfsfólki garðsins.

Enginn sjúkrabíll var til staðar í garðinum og þurfti að bíða eftir honum í um 20-25 mínútur. Þegar sjúkrabíllinn kom loks lést sonur okkar inni í honum, á meðan hann var enn inni á svæðinu og var Andri Freyr því aldrei fluttur á sjúkrahús,“ segja foreldrar hans og stjúpforeldrar.

Börnin okkar öll sem voru með í ferðinni hafa nú verið flutt til Íslands til sinna foreldra til að fá aðstoð vegna þessa hræðilegu atburða sem þau urðu því miður vitni að. Faðir Andra Freys og stjúpmóðir urðu eftir í Torrevieja til að ganga frá málum og koma Andra Frey heim.

Þakka Wow Air og fleirum sem veitt hafa aðstoð

Fjölskyldan segist með þessu vilja skýra rétt frá atburðum og óska þess að erfiðar aðstæður þeirra séu virtar og fjölmiðlar flytji ekki óstaðfestar fréttir af málinu, þar sem farið sé með rangt mál. „Viljum við biðja fjölmiðla að gæta ykkar framvegis hvað og hvernig fréttir ykkar eru settar fram í fjölmiðlum ykkar því það hjálpar ekki systkinum og öðrum aðstandendum að lesa fréttir sem byggjast ekki á sannleikanum.

Að lokum vilja fjölskyldurnar fá að koma þakklæti til allra sem hafa sýnt okkur samhug vegna þessa hræðilegu atburða og þeirra sem hafa greitt götu þeirra, „þó sér í lagi Skúla Mogensen, starfsfólki Wow Air og Sveini Arnari Nikulásarsyni fulltrúa hjá félagi húseigenda á Spáni.“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Allt gekk sinn vanagang þrátt fyrir slysið

Fjölskyldan gaf skýrslu í morgun

Pilturinn sem lést á Spáni

„Fyrir mér var þetta versta tækið“

Samskonar rússibönum lokað

Rannsókn hafin á banaslysi íslenska piltsins

Staðfest að pilturinn var íslenskur

Íslendingur sagður látinn í skemmtigarði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert