„Bestu tónleikar sem ég hef séð“

Beth Gibbons söngkona Portishead.
Beth Gibbons söngkona Portishead. Arnar Bergmann Sigurbjörnsson

„Bestu tónleikar sem ég hef séð.“ Þessi setning heyrðist oftar en einu sinni eftir tónleika Portishead á All Tomorrow's Parties-hátíðinni sem hófst með frábærum tónleikum Neil Young á mánudagskvöld og lauk á laugardagskvöld. Hátíðin er skipulögð af tónlistarunnendum fyrir tónlistarunnendur og upplifunin er eftir því, mbl.is var á ATP.

Rok, rigning og rokk

Veðrið setti svip sinn á fimmtudaginn þar sem maður sá fólk á harðaspretti á milli tónleikastaðanna til að koma í veg fyrir að verða gjörsamlega gegndrepa í rokinu og rigningunni sem veðurguðirnir buðu upp á þann daginn. Low reiddi fram rólegheit sem dugðu ekki til að ylja manni nægilega en þar sem Swans heltist úr lestinni kom Spiritualized í staðinn og flutti frábært órafmagnað sett þar sem Amiina og þrjár söngkonur komu fram með þeim J. Spaceman og Tony Goster. Lög eins og Broken Heart og Ladies and Gentlemen, We Are Floating in Space af samnefndri plötu dugðu til að losa um hrollinn, góð redding þar hjá skipuleggjendum.

Hlýjan og þægindin í Andrews Theatre komu í veg fyrir að maður legði út í bleytuna til að sjá Shellac, sem fólk virtist hæstánægt með. Þá var komið að hárprúða letirokkaranum Kurt Vile, sem gerði góða plötu á síðasta ári. Eitthvað vantaði þó upp á að hann næði að heilla áhorfendur með sér þrátt fyrir þokkalega spretti og daginn eftir töluðu orðaglensarar um Kurt Væl á samskiptamiðlunum. Næstir á svið voru skosku reynsluboltarnir í Mogwai, sem tóku að sér að hrista upp í eyrum hlustenda. Þrátt fyrir að vera ýmsu vanur var hávaðinn í Atlantic Studios við sársaukamörk. Fólk virtist þó bara nokkuð ánægt með gítarvegginn sem þeir félagar reistu enda eiga þeir dyggan aðdáendahóp. 

Magnaðir tónleikar Portishead

Föstudagurinn byrjaði með Náttfara í Andrews Theatre, en sveitin, sem spilar síðrokk af bestu gerð, gæti líklega ekki beðið um betri áhorfendahóp en þá sem sækja ATP. Þeir sem voru mættir virtust kunna vel að meta tónlistina, sem er keyrð áfram af trommuleik sem á sér engan líka. Á svona hátíð er nauðsynlegt að velja orrusturnar og því getur verið kærkomið að setjast niður og horfa á bíómynd. Eftir að hafa kíkt á Mammút var ákveðið að hvíla lúin bein og horfa á dystópíuna Soylent Green sem var sýnd í Keili, en meðlimir Portishead völdu myndirnar sem voru sýndar yfir helgina. Bara þetta atriði í myndinni hefði dugað til að réttlæta það val.    

Það sem ég sá af Liars var frábært, mögnuð sveit. Næstir á svið voru gömlu skóglápararnir í Slowdive, sem eru að koma saman í ár eftir langa pásu. Lögin af Souvlaki voru flott og sveitin var komin á gott flug í lokin þegar hún flutti m.a. flotta útgáfu af Golden Hair eftir Syd Barrett.

Næst á svið var Portishead, sem fólk var augljóslega spenntast fyrir, og ekkert skrýtið þar sem sveitin hreinlega virðist ekki geta stigið feilspor. Það verður líklega seint talið afrek að gefa út þrjár plötur á tuttugu ára ferli, en þvílíkar plötur sem þær eru. Eftirvæntingin var mikil á meðal áhorfenda og allt frá því að mekanískur takturinn í Silence hófst var salurinn í leiðslu sem varð ekki rofin næsta einu og hálfu klukkustundina.

Líklega útsetur engin sveit tónlist sína jafn vel á upptökum og Portishead og því er eiginlega ótrúlegt að tónlistin njóti sín jafn vel á tónleikum og raun ber vitni. Þau virtust kunna vel við sig á Ásbrú og Beth Gibbons stökk niður af sviðinu til að heilsa upp á áhorfendur, sem hefðu líklega getað hlustað á sveitina fram á morgun. Hrifningin leyndi sér ekki og þeir voru ófáir sem sögðu þetta bestu tónleika sem þeir hefðu farið á, sem heyrðist reyndar líka hjá mörgum eftir tónleika Nick Cave á Ásbrú í fyrra. Það virðist einhver galdur þarna í gangi.

Klukkan var að nálgast tvö þegar þau voru búin og orkan var á þrotum og þó að ég hafi verið allur af vilja gerður til að hlusta á harða takta og sýrðan en melódískan hljóðheim Fuck Buttons játaði ég mig þó sigraðan eftir 25 mínútur.

Sjarmatröll og snyrtilegar blússur

Sin Fang var að prófa nýja hluti á laugardeginum og flutti lög sín einn með tveimur trommuleikurum. Þrátt fyrir að það hafi náðst almennilega á flug þarna var það samt skemmtilegt og verður forvitnilegt að heyra hvert það leiðir. Tríóið Eux, sem gefur út hjá útgáfuarmi ATP, hljómaði alls ekki spennandi.

Sjarmatröllinu Devendra Banhart tókst að heilla þá sem voru að hlusta á hann en var greinilega frekar pirraður á kliðnum í salnum, reyndar var furðulegt að ekki hafi verið hækkað meira í honum þar sem kliðurinn yfirgnæfði á köflum tónlistina jafnvel alveg upp við svið. Skamm þið sem voruð að blaðra. Devendra er mikið ólíkindatól og því vissi maður lítið hverju von væri á frá honum en hann flutti lög eins og A Sight to Behold og The Body Breaks af hinni frábæru Rejoicing in the Hands sem hann gerði frábærlega. Magnaður tónlistarmaður.

Interpol er sveit sem ég á erfitt með ákveða hvað mér finnst um. Turn on the Bright Lights er frábær plata og sveitin hefur samið mjög góða tónlist. Aftur á móti eru mörg lögin keimlík og ég fékk það stundum á tilfinninguna að ég væri að hlusta á sama lagið aftur og aftur á laugardaginn. Kynþokkinn var keyrður í botn og það glitti í gullkeðjur á bak við snyrtilegar blússur. Í upphafi hljómaði rödd Paul Banks þó hreint út sagt skelfilega. Það batnaði þó og í nokkrum lögum af fyrstu tveimur plötum sveitarinnar náði tónlistin að halda í við eitursvalt lúkkið en nýju lögin hljómuðu afar óspennandi. 

Ekki er hægt að sleppa því að minnast á skipulag hátíðarinnar, sem var frábært. Fjölbreytt og gott úrval tónlistaratriða þar sem allir tónlistarunnendur (og það eru langflestir sem leggja leið sína á svæðið ósviknir tónlistarunnendur, sem er mikill kostur) ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þá er andrúmsloftið á Ásbrú þægilega afslappað, þar sem t.a.m. er hægt að kaupa bjór án þess að svíða undan verðinu.   

Allt í allt er frábær vika á enda og maður er strax farinn að leiða hugann að því hvernig dagskrá næstu hátíðar muni líta út. Þessi verður í það minnsta lengi í minnum höfð. 

Á Flickr-síðu ATP má sjá mikið af myndum sem voru teknar í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert