Hefur gefið yfir þúsund kaffibolla

Sverr­ir Rolf Sand­er í glugga heim­il­is síns að Bald­urs­götu þar …
Sverr­ir Rolf Sand­er í glugga heim­il­is síns að Bald­urs­götu þar sem hann starf­ræk­ir kaffi­hús

„Þetta er búið að vera alveg frábært,“ segir Sverr­ir Rolf Sand­er sem hefur starfrækt kaffi­húsið Puff­in Cof­fee heima hjá sér á Baldursgötu í Reykja­vík í sumar. Kaffi­húsið er sér­stakt að því leyti að boll­inn er ókeyp­is en fólki er þó frjálst að gefa fjár­fram­lög, til styrkt­ar rann­sóknum á ein­hverfu.

Í næsta mánuði mun Sverrir halda til Bretlandseyja þar sem hann tekur þátt í hjólaferð frá Manchester til London. Til­gang­ur henn­ar að vekja at­hygli á ein­hverfu og safna pen­ing­um til styrkt­ar rann­sóknum á henni. Sverrir þurfti að greiða sér­stakt skrán­ing­ar­gjald úr eigin vasa en einnig safna ut­anaðkom­andi áheit­um að ákveðinni upp­hæð sem fer beint til styrkt­ar rann­sóknum á ein­hverfu. 

Gat ekki haldið sig frá kaffinu

Sverrir hefur staðið vaktina í glugganum flesta daga í sumar. Þó tók hann sér vikufrí. „Ég náði að safna frekar miklum pening á stuttum tíma. Mamma mín er búsett í Osló og ég keypti mér flugmiða  þangað og var í viku. Ég ætlaði að vera lengur en áhuginn eftir því að þetta verkefni myndi halda áfram var svo mikill að ég ákvað að koma aftur. Svo fannst mér þetta líka svo skemmtilegt.“

Sú upphæð sem Sverrir þurfti náðist hratt og örugglega og hefur hann haldið áfram að safna síðan. „Ég held að söfnunin standi í 330-340 þúsund krónum  núna. Ég ákvað að halda þessu bara áfram.“

Netið breiddi út boðskapinn

Sverrir gerir ráð fyrir því að fólk hafi aðallega heyrt af Puffin Coffee í gegnum netið, mestmegnis á fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum eins og Facebook. mbl.is birti viðtal við Sverri daginn eftir að Puffin Coffee opnaði í vor og segir hann að sú grein hafi breytt miklu. „Viðtökurnar eftir greinina voru alveg stórkostlegar, ég held að sex manns hafi beðið í röð þegar mest lét fyrstu dagana eftir að greinin birtist.

Sverrir lítur á Puffin Coffee sem tækifæri til þess að gleðja fólk og safna fyrir góðu málefni. „Í júlí flaug Puffin Coffee úr hreiðrinu og fór í útrás. Ég hef verið að mæta í fyrirtæki í hádeginu og bjóða uppá kaffi. Svo held ég heim og opna gluggann. Með þessu má segja að ég sé að búa til eftirspurn.“

Velgengnin kom á óvart

Aðspurður segir Sverrir að velgengni Puffin Coffee hafi komið honum á óvart. „Ég man að þegar ég var að segja mínum bestu vinum frá þessu var kannski ekki hlegið að mér en sumir ranghvolfdu augunum og kannski réttilega. Af hverju ætti fólk að mæta í eldhúsgluggann hjá einhverjum gæja með enga kaffimenntun eða reynslu á bakinu og fara að biðja um kaffi? En þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel.“

Eftir hjólaferðina í september mun Sverrir halda áfram námi sínu í sálfræði við Háskóla Íslands. Ekki er vitað hvort að Puffin Coffee haldi starfsemi sinni áfram í vetur. „Það hafa verið uppi ýmsar hugmyndir og aðdáendur kaffihússins vilja að þetta haldi áfram. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvernig þetta verður. Ég hef áhuga á að halda áfram en ég þyrfti að útfæra það mjög vel,“ segir Sverrir.

„Líka þegar að hjólreiðaferðin er búin verður þetta allt öðruvísi.  Söfnunin er sagan á bak við þetta og ástæðan af hverju Puffin Coffee varð til þannig að ef ég held áfram þá þyrfti ég að finna annað aðdráttarafl.“

Treysti á góðmennsku fólks

Sverrir rukkaði aldrei fyrir kaffibollann og hefur hann ávallt verið gjöf út um gluggann. „Síðan þurfti ég bara að treysta á góðmennsku fólks og hingað til hefur það virkað. Fólk hefur verið að gefa krónur, evrur, dollara, hvað sem er og ég tek við öllu,“ segir Sverrir sem bætir við að það hafi komið honum á óvart hversu gjafmilt fólk hefur verið. „Sumir hafa verið mjög örlátir. Samkvæmt bókhaldinu hef ég gefið rúmlega þúsund kaffibolla út um eldhúsgluggann hjá mér í sumar.“

Þeir sem vilja styrkja málefnið en hafa ekki færi á að fá sér kaffi hjá Sverri getur farið á heimasíðu Puffin Coffee og styrk málefnið þar beint. Jafnframt er hægt að leggja inn á ákveðin reikning en einnig hafa sumir notast við Bitcoin.  

Allur peningur sem hefur safnast rennur óskertur til rannsókna á einhverfu. „Það hefur ekki breyst og mun ekki breytast,“ segir Sverrir.

Hægt er að styrkja söfnun Sverris með því að leggja inn á reikningsnúmer 0338-26-360301, kt. 1009853149. Jafnframt er hægt að styrkja málefnið á heimasíðu Puffin Coffee.

Facebook síða Puffin Coffee.

Sjá frétt mbl.is : Selur kaffi út um gluggann heima hjá sér

Sverrir býður upp á kaffi út um eldhúsgluggan heima hjá …
Sverrir býður upp á kaffi út um eldhúsgluggan heima hjá sér að Baldursgötu 26 í Reykjavík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert