Enn minnkar launamunurinn

Kynbundinn launamunur innan VR er 8,5% og hefur dregist saman um rúmlega 40% frá árinu 2000, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR. Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu um 7% á milli janúar 2013 og 2014 og héldu í við launaþróun á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í frétt á vef VR.

Kynbundinn launamunur 8,5% 

Kynbundinn launamunur innan VR er 8,5% en var 9,4% í fyrra samkvæmt niðurstöðum launakönnunarinnar. Kynbundinn munur er sá munur sem er á launum karla og kvenna eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifaþátta á laun, s.s. vinnutíma, starfs, atvinnugreinar, mannaforráða o.þ.h. Breyting á kynbundnum launamun er umtalsverð til lengri tíma litið; árið 2000 var hann 15,3% og hefur því dregist saman um rúmlega 40% á fjórtán árum. 

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu að meðaltali um 7% á milli janúar 2013 og 2014. Grunnlaun hækkuðu mjög svipað eða um 6,9% að meðaltali. Þessar hækkanir eru umfram samningsbundnar hækkanir á tímabilinu sem voru alls 6,1% á tímabilinu. Þessari hækkanir eru einnig umfram þróun launavísitölu Hagstofunnar á sama tímabili en hún hækkaði um 6,7%. 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,1% milli janúarmánaða 2013 og 2014 og jókst kaupmáttur heildarlauna félagsmanna, samkvæmt launakönnun, því um tæplega 4% á tímabilinu. Sjá ítarlega umfjöllun um launaþróunina.

Punktar úr könnuninni:

  • Framhaldsmenntun í háskóla – masters- eða doktorsgráða - skilar 30% hækkun launa miðað við grunnskólamenntun en ávinningurinn er minni nú en hann var fyrir nokkrum árum. 
  • Álag hefur aukist á milli ára að mati rúmlega 60% svarenda sem er hærra hlutfall en í fyrra. Fleiri telja nú en í fyrra að þeim myndi reynast erfitt að fá aðra vinnu með svipuð kjör, 35% á móti 31%. Munurinn er marktækur eftir kyni og aldri. 
  • Laun þeirra sem hafa lægstu launin eru um þriðjungur af launum þeirra tekjuhæstu. 
  • Um helmingur svarenda í launakönnun VR eða 52% vann hluta af sínum vinnutíma utan hins hefðbundna dagvinnutíma í janúar síðastliðnum. Þetta á frekar við um yngri félagsmenn en þá eldri og hæsta hlutfall utan dagvinnu er í verslun og þjónustu.

Hér má sjá ítarlega greiningu og allar tölur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert