Var talinn brjálaður að vilja byggja upp

Vilhjálmur Vernharðsson ræður ríkjum á Möðrudal.
Vilhjálmur Vernharðsson ræður ríkjum á Möðrudal. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Möðrudalur á Fjöllum, hæsta byggða ból á Íslandi, er næsti bær við eldgosið í Holuhrauni. Fjarlægðin að rauðglóandi sjónarspilinu er reyndar töluverð, en nær allir sem fara að gosstöðvunum aka um Möðrudal. Þar er nú lítið fjárbú og myndarleg ferðaþjónusta hefur verið byggð upp á síðustu árum sem m.a. erlendir fjölmiðlamenn hafa notið góðs af undanfarið.

Þjóðvegur 1 lá í áratugi um bæjarhlaðið á Möðrudal. Bændur bjuggu þar með fé og íbúar á Skjöldólfsstöðum, efsta bæ á Jökuldal, ráku sjoppu þar sem fjöldinn fékk sér léttar veitingar á leiðinni milli Norður- og Austurlands og kastaði af sér vatni.

Aftur heim

„Við byrjuðum með ferðaþjónustu í smáum stíl þegar þjóðveginum var breytt árið 2001,“ segir Vilhjálmur Vernharðsson, sem ræður ríkjum á Möðrudal ásamt eiginkonu sinni, Elísabetu Svövu Kristjánsdóttur. Hjónin búa þar ásamt átta ára dóttur, Ísold Fönn.

Í byrjun aldarinnar var hluti vegarins um Möðrudalsöræfi færður og bærinn því skyndilega úr alfaraleið. Loka átti sjoppunni og foreldrar Vilhjálms hugðust jafnvel bregða búi. „Ég gat ekki hugsað mér að horfa upp á að staðurinn færi í eyði,“ segir hann núna. Vilhjálmur var fluttur að heiman; var fyrst á Akureyri í skóla en rak smíðafyrirtæki í Reykjavík þegar þarna var komið sögu. Ákvað samt að slá til og flytja aftur heim. „Það var aldrei hik á mér; ég vildi prófa, tók þessa ákvörðun og sé ekki eftir henni. Flestir töldu mig hins vegar brjálaðan að vilja byggja upp á staðnum eftir að þjóðvegurinn var færður. Ég byrjaði á því að taka við sjoppunni, og byrjaði hægt og rólega í ferðaþjónustu.“ Í upphafi var boðið upp á gistiaðstöðu á tjaldstæði og í einu húsi. Nú er gistirými, fyrir utan tjaldstæðið, fyrir 48 manns á staðnum, í tveimur íbúðarhúsum sem var breytt, tveimur sex manna torfbæjum og tveimur slíkum þar sem rúm er fyrir tvo í hvorum. „Við byrjuðum smátt en þetta hefur undið upp á sig. Nú bjóðum við líka upp á dagsferðir í Öskju og Kverkfjöll og rekum veitingastað.“

Hjónin eru með búskap: 100 rollur og 40 geitur. „Þetta er ekki stór búskapur en dugar fyrir okkur. Við látum slátra fyrir okkur en tökum allt kjöt heim, erum með vottaða vinnslu og reykhús, seljum jólahangikjöt í gegnum síðu á netinu, modrudalur.is, en annað notum við hér á veitingastaðnum. Nánast allt sem boðið er upp á þar er af svæðinu; lambið okkar, bleikja sem við veiðum sjálf og gæs sem við skjótum.“

Vilhjálmur segir flesta viðskiptavini veitingahússins fólk á hringferð um landið með rútum. „Það heldur okkur uppi. Flestar rútur fara gamla veginn, um 40 kílómetra leið út af malbikinu og fólk stoppar hér í mat eða kaffi. Í mörgum ferðabókum er fólki einmitt ráðlagt að fara hér í gegn – að aka veg 901, vegna þess hve útsýnið er gott. Hingað koma því mjög margir yfir sumarið og þá er mikið að gera, en vandamálið er hve aðalferðamannatímabilið er stutt; hér hefur verið farið út í mikla fjárfestingu fyrir stuttan tíma á hverju ári.“

Vilhjálmur minntist á útsýnið og ekki að ósekju. Óvíða er til dæmis fegurra að skríða út úr tjaldi að morgni því drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, blasir við í allri sinni dýrð. „Mörgum finnst mikið til útsýnisins koma, útlendingar eru ekki síst hrifnir af því hve þeir sjá langt til allra átta. Fólki sem yfirleitt sér ekki lengra en að næsta húsvegg eða bíl finnst frábært að koma hingað. Fólk sem aldrei er í þögn heima hjá sér sækir líka í svona staði. Útlendingar tala bæði um þetta og fegurðina, ekki síst fegurðina í auðninni, sem Íslendingar virðast hins vegar skammast sín fyrir og vilja helst græða upp. Útlendingum finnst æðislegt að sjá mela þar sem ekki er stingandi strá. Þeir horfa allt öðrum augum á landið en við.“

Gosið hefur áhrif

Gestum í Möðrudal hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Gosið í Holuhrauni í haust hefur haft áhrif, á báða vegu. „Það kom dálítið bakslag fyrst því mikið var gert úr gosinu og fólk jafnvel hrætt við að koma hingað. Aftur á móti hefur verið hér töluvert af erlendum ljósmyndurum sem gista hjá okkur og hinn hefðbundni ferðamaður er farinn að láta sjá sig aftur. Það er meira að gera hjá okkur núna en nokkru sinni þegar komið er svona langt fram í september. Margir koma líka hingað til þess að sjá bjarmann frá gosinu; það getur verið virkilega flott að sjá hann héðan á kvöldin.“

Vilhjálmur hlær þegar spurt er hvort ekki sá ákjósanlegast fyrir hann að gosið standi sem lengst. „Ég má nú líklega ekki segja það. Og þó, sennilega er best að það verði svona sem lengst því þá gerist ekkert annað og verra á meðan.“

Möðrudalur á Fjöllum.
Möðrudalur á Fjöllum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Skyldi einhvers staðar fallegra útsýni af tjaldstæði á Íslandi?
Skyldi einhvers staðar fallegra útsýni af tjaldstæði á Íslandi? mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert