Fresta tug aðgerða á Akureyri

Tugum aðgerða verður frestað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag …
Tugum aðgerða verður frestað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag en læknar á sjúkrahúsinu lögðu niður störf á miðnætti í nótt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Alls verður tíu aðgerðum frestað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag og á morgun en læknar á sjúkrahúsinu lögðu niður störf á miðnætti í nótt. Verkfallsaðgerðir þeirra standa yfir til miðnættis annað kvöld. Endurkomum og komum á göngudeildir verður einnig frestað.

Einn sérfræðilæknir verður við störf á hverri vaktalínu á sjúkrahúsinu, þ.e. einn barnalæknir, geðlæknir, lyflæknir, öldrunarlæknir, myndgreiningarlæknir, sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku, svæfinga- og gjörgæslulæknir og fæðinga- og kvensjúkdómalæknir. Skurðlæknar og bæklunarlæknar eru ekki í verkfalli.

Aðgerðirnar skipulagðar langt fram í tímann

Aðspurður segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, að líklegast verði einna mest að gera á bráðamóttöku og hjá heilsugæslulæknum í dag. Bráðamóttakan verður opin en valkvæðum endurkomum tengdar bráðamóttöku verður frestað.

Meðal þeirra aðgerða sem frestað verður í dag eru liðskipta- og gallblöðruaðgerðir. Sigurður segir að aðgerðirnar séu skipulagðar langt fram í tímann og því gæti tekið nokkurn tíma að koma þeim sjúklingum sem missa tímann sinn í dag að eftir að verkfallsaðgerðunum lýkur annað kvöld.

Hér má lesa nánar um þá röskun sem verður vegna verkfallsaðgerða lækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert