Dularfulla hljóðið heyrist á ný

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Enn virðist sem torkennilegt hljóð geri íbúum á Akureyri lífið leitt. Akureyri Vikublað sagði frá því í vor að lágtíðnihljóð ylli sumum íbúum á Akureyri andvöku. Skömmu eftir að blaðið birti fréttina hafði fólk samband og taldi hljóðið úr sögunni. Kona, búsett á Eyrinni, hafði svo samband við blaðið í fyrradag og sagði að dimmt og furðulegt hljóð, eins konar lágtíðnisuð, hefði truflað nætursvefn hennar upp á síðkastið.

Samkvæmt lýsingu konunnar lýsir hljóðið sér með svipuðum hætti og þegar blaðið greindi frá því í maí sl. að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefði fengið ábendingar og kvartanir vegna næturhljóða, segir í frétt blaðsins.

Um tíma bárust böndin að loftblásara í Vaðlaheiðargöngum. Ósannað þykir þó að sökudólginn sé þar að finna en furður eru þó ýmsar í Vaðlaheiðargöngum síðan framkvæmdir hófust. Í samtali við Akureyri Vikublað fyrr á árinu sagði Alfreð Schiöth heilbrigðisfulltrúi: „Þetta er fyrirbæri sem er ekki óþekkt í fræðunum en vissulega dálítil ráðgáta. Gæti verið lágtíðnihljóð sem berst um langan veg. Í erli dagsins tekur enginn eftir þeim en svo þegar kvöldar og kyrrist magnast hlutfallegur styrkur.“

Í athugasemdum við frétt blaðsins þegar hún birtist á vefnum í maí síðastliðnum steig fjöldi fólks fram á ritvöllinn og kannaðist við hljóðið.

Frétt Akureyrar vikublaðs í heild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert