„Ég er ekki tala á blaði“

Helena Hafþórsdóttir skrifaði einlægan og opinskáan pistil um reynslu sína …
Helena Hafþórsdóttir skrifaði einlægan og opinskáan pistil um reynslu sína af norska heilbrigðiskerfinu.

„Fyrir nokkru síðan reykti ég mína síðustu jónu. Í bili allavega, hugsanlega það sem eftir er.“

Svona hefst pistill Helenu Hafþórsdóttur á bloggsíðu hennar þar sem hún segir frá reynslu sinni af því að sækjast eftir hjálp norska heilbrigðiskerfisins við að hætta að reykja kannabis. Helena hætti að drekka áfengi fyrir skömmu og ákvað í kjölfarið að næsta rökrétta skref væri að segja skilið við kannabis Þegar hún leitaði til sálfræðinga eftir stuðningi var hún hinsvegar skikkuð í vikulegar þvagprufur og til stóð að taka af henni bílprófið.

Í samtali við mbl.is rekur hún söguna af baráttu sinni við alkóhólisma og kerfi sem vill refsa fremur en að hjálpa.

Gleðigjafinn varð að hækju

Helena er búsett í þorpinu Bø í Telemark í Noregi ásamt unnusta sínum, Knut Kittil Lindheim en fjölskylda hans á ávaxtabúgarð nálægt þorpinu. Hún vinnur við markaðssetningu á svæðinu gagnvart ferðamönnum og tók þátt í stofnun sumarskíðskóla fyrir börn og unglinga. Þar að auki er hún lærður jógakennari og kennir jóga í líkamsræktarstöð í þorpinu.

Hún er hinsvegar uppalin á Akureyri. Hún byrjaði að drekka áfengi í efstu bekkjum grunnskóla og segir áfengi strax hafa valdið henni vandræðum. Var hún t.a.m. send fyrr heim úr skólaferðalagi frá Danmörku ásamt þriðjungi nemendahópsins vegna drykkju.

 „Þegar við komum heim var það fyrsta sem tók á móti mér forsíðufrétt á DV: „11 nemendur reknir heim úr skólaferðalagi“. Skömmin var vægast sagt gríðarleg,“ segir Helena.

Skömmin varði þó ekki lengi og kom enn síður í veg fyrir að Helena prófaði aðra vímugjafa. Í 3. bekk MA reykti hún kannabis í fyrsta skipti „Nokkrir vinir mínir höfðu prófað að reykja gras, og lýstu þessu á svo skemmtilegan hátt að ég gat ekki annað en látið tilleiðast. Þeir reyndust líka hafa svona rétt fyrir sér, óstoppanleg hlátursköst og bilað möns var bara einhvern veginn ekkert til að hafa áhyggjur af,“ segir Helena.

Kannabis átti þó eftir að breytast í hækju fremur en gleðigjafa. Í lok árs 2008, lést náinn vinur Helenu. Þá var hún flutt til unnusta síns í Noregi og hafði hafið nám. Hún sneri heim um jólin og sökkti sér í áfengisdrykkju og reykingar. 

„Ég hafði ekki misst neinn svo nákominn mér áður, þetta var algjörlega ný tilfinning og úff hvað mig langaði að deyfa hana. Þegar ég snéri tilbaka til Noregs langaði mig ekki til að lifa með öllum þessum tilfinningum og það var fyrst þá sem ég byrja að „treysta“ á kannabis. Ég byrjaði að reykja á hverjum degi, skráði mig úr fögum í skólanum og svaf af mér svo að segja heila önn,“ segir Helena. 

Um sumarið segist Helena hafa áttað sig á því að hún væri að nota kannabis á röngum forsendum. Hún lagði þrotlausa vinnu í að taka öll fögin upp á nýtt og kláraði jólaprófin með glæsibrag. Hún segist þó ekki hafa fundið fyrir vilja eða þörf til að hætta enda hafi hún alltaf verið „fúnkerandi“ á öllum stigum samfélagsins.

Náði botninum og vildi hverfa

„Núna þegar ég lít tilbaka átta ég mig á því að ég hef líklegast alltaf farið illa með áfengi. Ég veit ekki hversu oft ég hef tekið mér pásur vegna þess að eitthvað leiðinlegt hefur gerst þegar ég hef verið drukkin. Ef maður kann að fara með áfengi þá þarf maður ekki að taka sér pásur frá því, þá drekkur maður bara einfaldlega skynsamlega,“ segir Helena.

„Alkóhólismi er svo margslunginn. Því verr sem þér líður, því meira drekkuru. Því meira sem þú drekkur, því verr líður þér. Kvíðinn og sjálfshatrið fór að verða að einhverju „comfort zone“, og mér leið bara „best“ þegar mér leið illa, það var það sem ég átti skilið“ heldur hún áfram.

Hún segir botninum þó hafa verið náð árið 2014 og að það ár hafi verið verra en öll hin samanlagt.

„Í sumar gerðist hræðilegur hlutur þegar ég var drukkin, sem ég „sem betur fer“ man ekki sekúndubrot af. Það er enn of ferskt, og í raun bara of kvíðavaldandi til að ég vilji tjá mig um það opinberlega, en það fór ekkert á milli mála hvað gerðist og það var þá sem ég náði botninum.“

Kittil, unnusti Helenu, var staddur í Danmörku þegar áfallið dundi yfir en sem betur fer var systir hennar hjá henni. „Ég var á svo slæmum stað að þetta er í eina skiptið sem ég hef alvarlega hugsað með mér að það væri best fyrir alla ef ég myndi hreinlega láta mig hverfa. Hún var mín stoð og stytta í gegnum þessar fyrstu vikur og ég mun vera henni ævinlega þakklát fyrir.“

Í kjölfarið ákváðu bæði Helena og unnusti hennar að hætta að drekka.

Glæpamaður á 10 mínútum

Eftir að hafa verið áfengislaus í nokkra mánuði ákvað Helena að tími væri kominn á að segja einnig skilið við kannabis. Hún vildi leggjast í það ferli á eigin tíma og eigin forsendum en ákvað engu að síður að leita sér faglegrar aðstoðar læknis sem gæti útvegað henni sálfræðiaðstoð. Hún ákvað þó að bíða með að greina frá kannabisnotkun sinni.  Helena lýsir atburðarrásinni sem fylgdi í fyrrnefndum pistli á bloggsíðu sinni en hún hófst með því  að læknirinn gerði lítið úr því að Helena væri hætt að drekka.

„[Læknirinn] spyr mig hvort ég sé viss um að það sé rétta ákvörðunin fyrir mig.(...) Hann heldur áfram og segir að stundum sé gott að taka bara pásu og það sé ekkert athugavert við það að langa í bjór og gott vín annað slagið. Ég spurði hvort beiðnin væri send, hann játti því, og ég labbaði út.“ 

Eftir þriggja vikna bið kom í ljós að læknirinn hafði aldrei sent beiðnina. Þegar Helena náði af honum tali sagðist hann ekki senda beiðnir til sálfræðinga fyrir sjúklinga sem þjást af samviskubiti. Beiðnin komst þó loks í réttar hendur og nokkrum vikum síðar fékk Helena tíma hjá sálfræðingi. Í öðrum tímanum, eftir að hafa fullvissað sig um þagnarskyldu sálfræðingsins, ákvað hún að greina frá kannabisnotkun sinni.

Sálfræðingurinn tók undir að það væri mikilvægt að Helena hætti með þeim hætti sem hentaði henni best en tók jafnfram fram að þar sem þetta væri ekki hennar sérsvið myndi hún ræða við fíkniefnasálfræðing og fá ráðleggingar. Þá ljós kom að slíkir sálfræðingar hafa aðra og meiri tilkynningarskyldu.

„Hún baðst afsökunar á því að hafa ekki vitað þetta, en þar sem ég væri nú búin að viðurkenna reglulegar reykingar bæri fíknisérfræðingnum skylda að tilkynna það til yfirlæknis hjá [sveitarfélaginu ]sem svo myndi hafa samband við lögregluna, sem svo myndi taka af mér ökuskírteinið vegna einhverrar „hypothetical“ hættu um að ég sé alltaf að keyra undir áhrifum og þar með stofna lífi annarra í hættu. Ég myndi svo ekki fá það tilbaka fyrr en ég væri búin að skila hreinni þvagprufu samfleytt í 6 mánuði. (...) Manneskja sem aldrei hafði hitt mig ákvað á 10 mínútum að ég væri stórglæpamaður, eingöngu vegna þess að önnur manneskja sem samtals hafði hitt mig í tvær klukkustundir hafði skrifað eitthvað niður á blað.“

Að endingu ákváðu sálfræðingarnir að tilkynna ekki um notkun hennar til sveitarfélagsins þar sem það væri ekki gott fyrir bata hennar. Síðastliðinn mánudag skilaði Helena hinsvegar inn sinni fyrstu þvagprufu. Hún segir það hafa verið eitt mest niðurlægjandi augnablik lífs síns því þar sem læknarnir treysta henni ekki hafi hún þurft að pissa í glasið með hjúkrunarkonu í herberginu, konu sem sækir jógatímana hennar.

Mannúðleg vímuefnastefna gæti bjargað mannslífum

Helena kveðst ekki sjá eftir einni sekúndu af kannabisreykingum sínum enda hafi það bæði skemmt henni og hjálpað í gegnum tíðina. Hún viðurkennir þó að hafa verið orðið háð og segir það ekki góða tilfinningu að missa stjórnina. „Ég hef of lengi lifað lífinu eftir því mottói að líkami minn sé skemmtigarður, og núna var bara kominn tími til að ég færi að meðhöndla hann sem fallega musterið sem hann er.“

Í pistli sínum segist hún hafa verið ötul stuðningskona lögleiðingar fíkniefna í hátt í tíu ár og að hingað til hafi hún notað rannsóknir og reynslu annarra þjóða máli sínu til stuðnings. Hún hafi hinsvegar aldrei búist við því sín persónulega reynsla yrði að slíkum rökum.

Það er ekki hægt að 29 ára gömul kona, sem sjálf leitar sér hjálpar vegna fíknivandamáls, algjörlega af fúsum og frjálsum vilja, fái móttökur eins og þetta. Refsing, niðurlæging, refsing og aðeins meiri niðurlæging. Ég er ekki glæpamaður, ég er ekki tala á blaði,“ skrifar Helena.

„Fólki er auðvitað velkomið að dæma mig út frá mínum fyrri gjörðum, það er á allan hátt eðlilegt. Iðrunin og viljinn til að breyta rétt ætti hinsvegar að vega meira. Það er ekki þetta sem skilgreinir mig sem manneskju (...)“

Helena segir að mannlúðeg vímuefnastefna gæti bjargað mannslífum. „Þessi refsistefna gerir saklausa kannabisreykjendur að hardcore glæpamönnum, sem á endanum þjást við margvísleg geðræn vandamál vegna þess að það er búið að sannfæra þá um að þeir séu minna virði. Afglæpavæðing væri tvímælalaust góð byrjun, en ég held samt bara að það sé ekki nóg, sérstaklega þegar kemur að sterkari efnunum. Svo lengi sem dreifing og sala á vímuefnum er í höndum glæpagengja og óharðnaðra unglinga, jú þá mun ungt fólk halda áfram að deyja úr allt of stórum skömmtum.“

Helena telur stríðið gegn fíkniefnum hafa verið dæmt til að mistakast frá byrjun enda sé það í mannlegu eðli að sækjast eftir sælutilfinningu. „Sumir gera það á heilbrigðan hátt en aðrir velja sér styttri leiðina og þannig mun það alltaf vera. Að ætla sér að útrýma vímuefnum er eins og að ætla sér að útrýma mannlegu eðli. Það sem við getum hinsvegar gert er að takmarka skaðann sem vímuefni geta valdið. Það gerist ekki á meðan börn og unglingar eru hrædd við að spyrja rétta aðila um virkni efna, hvað sé of mikið, hvað gæti drepið þig. Það gerist ekki á meðan stjórnvöld framleiða glæpamenn í hrönnum, fyrir það eitt að finnast gott að reykja kannabis.“

Hræðsluáróður Bubba hafði þveröfug áhrif

Helena telur einnig nauðsynlegt að koma forvörnum fyrir ungt fólk á hærra stig. Hún minnist sérstaklega fornvarnarfræðslu á vegum olíufélagsins ESSO (sem nú heitir N1) þar sem Bubbi Morthens fór í forvarnarherferð í kringum landið og stoppaði í öllum helstu grunn- og framhaldsskólum.

„Það hefur enginn, hvorki fyrr né síðar, gert mig jafn spennta fyrir því að prófa vímuefni og Bubbi Morthens. Hann talaði í vel yfir klukkustund um lífið í neyslu. Þó svo að ætlunin hafi verið að hræða okkur frá því vorum við samt nokkur sem stóðum eftir með hugsunina: „Þannig að maður getur sem sagt prófað allan andskotann, skemmt sér ógeðslega vel og svo bara hætt og haldið áfram lífinu?“.

Helena segir að svo lengi sem forvarnarfræðsla byggist á hræðsluáróðri séu alltaf einhverjir sem muni misskilja eða mistúlka boðskapinn. Þess vegna þurfi að gera stefnubreytingu og veita unglingum alvöru fræðslu í stað þess að reyna að vekja með þeim ótta. „Við erum að tala um ómótaða unglinga sem jafnvel eru að ganga í gegnum hið svokallaða „uppreisnartímabil“, bætir hún við.

Hún segir einnig að miðað við sína reynslu þurfi heilbrigðiskerfið að breyta um viðhorf til fólks með fíknivanda. Hún hafi fullan skilning á því að erfitt geti verið að meðhöndla sjúklinga sem eru mjög langt leiddir í neyslu, en það séu alls ekki allir sem leita sér hjálpar á þeim stað. Hún segist hafa fundið sig knúna til að skrifa pistilinn þar sem óréttlæti og svívirðilega framkomu eigi ekki að þagga niður. Hana langar að skrifa pistilinn á norsku en segist hrædd við afleiðingarnar.

„Það er í raun bilað, það er jú hér sem ég á eftir að búa allt mitt líf og það er hér sem ég vil sjá þessa breytingu. Auðvitað vil ég sjá hana á Íslandi og helst útum allan heim, en þegar allt kemur til alls þá er það hér sem ég mun ala upp börnin mín. Vonandi öðlast ég kjark í það áður en um langt um líður.“

Ber ábyrgð á sjálfri sér

Þó enn sé stutt síðan að Helena hætti að reykja kannabis segir hún það ganga betur en hún þorði að vona.

„Ég er þrjósk og ætla ekki að láta nokkrar hindranir stoppa mig frá því að ná mínum markmiðum. Ég er líka búin að tala við sálfræðingana, þær hafa beðið mig afsökunar hvað ofan í annað og ég ætla mér aldeilis ekki að erfa þetta við þær.“

Hún segir sjálfstraust sitt hafa aukist til muna eftir að hún hætti að drekka og að einnig sé gott að vera laus við kvíðann og ofsóknarbrjálæðið sem fylgi því að vera stimpluð sem glæpamaður.

„Það er enginn sem ber ábyrgð á því hvernig mér líður nema ég sjálf. Að hafa það gott er hugarástand. Ég mun nota næstu vikurnar og mánuðina til að kynnast sjálfri mér upp á nýtt og rækta allt í senn líkama, áhugamál, ástina, hugann og holl vinasambönd. Einn dag í einu.“

Hér má lesa pistil Helenu í heild sinni.

Helena segist líklega alltaf hafa farið illa með áfengi.
Helena segist líklega alltaf hafa farið illa með áfengi. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson
Norsk sveitasæla. Helena býr í þorpinu Bø í Noregi.
Norsk sveitasæla. Helena býr í þorpinu Bø í Noregi. Ljósmynd/ Johannes Jansson
Helena ásamt unnusta sínum.
Helena ásamt unnusta sínum.
Helena segir refsistefnu gagnvart neytendum kannabis ekki vænlega til árangurs.
Helena segir refsistefnu gagnvart neytendum kannabis ekki vænlega til árangurs. mbl.is/ Júlíus
Helena segir heilbrigðiskerfið þurfa að gera greinarmun á þeim sem …
Helena segir heilbrigðiskerfið þurfa að gera greinarmun á þeim sem eru langt leiddir í fíkn og öðrum sem leita sér aðstoðar. mbl.is/ Árni Sæberg
Frá kannabisræktun sem upprætt var í Hafnarfirði í fyrra. Helena …
Frá kannabisræktun sem upprætt var í Hafnarfirði í fyrra. Helena telur stríðið gegn fíkiefnum tapað á meðan að sala er í höndum glæpamanna og unglinga. Júlíus Sigurjónsson
Lögregla leggur hald á kannabisplöntur.
Lögregla leggur hald á kannabisplöntur. mbl.is/Júlíus
Frá undirritun samnings Bubba Morthens og þáverandi forstjóra Olíufélagsins hf. …
Frá undirritun samnings Bubba Morthens og þáverandi forstjóra Olíufélagsins hf. um forvarnaverkefnið Veldu rétt árið 2001. mbl.is/ Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert