Listrænn stjórnandi Vinterfest

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi kammertónlistarhátíðarinnar Vinterfest í Svíþjóð. Píanóleikarinn kom fyrst fram á hátíðinni 2011 og segist munu leitast við að heiðra „ævintýralega“ listræna sýn forvera síns, Martin Fröst.

Á heimasíðu Vinterfest segir m.a. að Víkingur standi nú á „þröskuldi meiriháttar alþjóðlegs ferils“. Hann sé opinn og skapandi og hafi mikinn áhuga á samskiptamiðlum og nýjum leiðum.

„Himnesk músíkgáfa og frumlegur persónuleiki Víkings Heiðars gerir hann verðugan eftirmann Martin Fröst. Í Víkingi sjáum við listrænan stjórnanda sem getur varðað þá spennandi og hágæða hátíð sem Martin hefur byggt upp, á sama tíma og við sjáum listrænan stjórnanda með sína eigin, spennandi sýn á þróun Vinterfest,“ segir á heimasíðunni.

Á síðunni er haft eftir Víkingi að honum sé afar annt um hátíðina og það sé honum mikill heiður að taka við af Fröst, hvers vinátta og listfengi hafi skipt hann miklu gegnum árin.

„Ég man eftir fyrsta skiptinu sem ég kom fram á Vinterfest árið 2011. Það virtist ómögulega kalt úti, jafnvel fyrir Íslending, en frá fyrsta degi skynjaði ég hina gríðarmiklu hlýju sem einkennir þessa hátíð. Æfingarnar voru strangar, tónleikarnir eftirminnilegir og áhorfendurnir einkar vinalegir og opnir,“ er haft eftir Víkingi.

Vinterfest fer fram í febrúar ár hvert og hefur verið kölluð ein ánægjulegasta tónlistarhátíð Evrópu af tónlistartímariti BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert