Mennirnir unnu mikið þrekvirki

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar að störfum í morgun. Unnið er að því …
Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar að störfum í morgun. Unnið er að því að tæma lónið fyrir ofan Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk. mbl.is/Júlíus

Vegfarandi og lögreglumaður unnu gríðarlega mikið þrekvirki í gær þegar þeim tókst að ná tveimur ungum drengjum úr fossi fyrir neðan Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk í Hafnarfirði.

Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar en fyrir neðan stífluna myndast svokallaður hvirfill, líkt og í hræri- eða þvottavél.

Aðstæður sem þessar myndast við yfirfallsstíflur, líkt og Reykdalsstíflu, en þar kemur vatn úr nokkurri hæð eftir sléttum vegg og rennur ofan í holu.

„Við stíflur sem þessar myndast hálfgerður hvirfill, líkt og í hrærivél, og þú nærð þér ekki upp úr honum. Þú festist undir vatninu fyrir neðan fallið,“ segir Brynjar Friðrikson, deildarstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu en hann er meðal þeirra sem tóku þátt í störfum á vettvangi í gær.

Allt sem losnar frá veggnum ýtist aftur niður í vatnið og því getur verið afar erfitt að komast úr aðstæðunum.

Mennirnir lögðu líf sitt í hættu

Brynjar segir að mennirnir tveir sem fóru ofan í vatnið til að bjarga drengjunum lögðu líf sitt í hættu og sem betur hafi þeim tekist að koma drengjunum og sjálfum sér upp úr læknum. Um var að ræða vegfaranda sem stöðvaður var af ættingja drengsins og lögreglumann sem kom á vettvang.

„Þetta tókst með herkjum en var mjög erfitt. Þetta er eins og að lenda inni í þvottavél. Þar er alveg ljóst að þarna var mikið þrekvirki unnið,“ segir Brynjar.  

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er öðrum drengnum haldið sofnandi í öndunarvél en hinn drengurinn komst fljótt til meðvitundar. 

Vegfarandi og lögreglumaður unnu mikið þrekvirki við Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk …
Vegfarandi og lögreglumaður unnu mikið þrekvirki við Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk í Hafnarfirði í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert