Stefna á að opna sem fyrst

Public House
Public House Skjáskot

„Það var hringt í okkur núna rétt fyrir hádegi frá sýslumanninum,“ segir Gunnsteinn Helgi Maríusson í samtali við mbl.is. Þeir Eyþór Mar Halldórsson ætluðu að opna veitingastaðinn Public House við Laugaveginn í Reykjavík um síðustu mánaðamót en hafa ekki getað það enn vegna þess að stimpil lögfræðings hjá sýslumanni hefur vantað á rekstrarleyfi staðarins. Ástæðan fyrir því að stimpillinn hefur ekki fengist er verkfall lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnsteinn segir að sýslumaðurinn hafi nú í hyggju að leysa málið með því að veita veitingastaðnum rekstrarleyfið. Þá annað hvort með bráðabirgðaleyfi eða öðrum hætti. „Þannig að við getum farið bara í fyrramálið og sótt leyfið og opnað í kjölfarið. Við vorum með allt klár fyrir opnun um síðustu mánaðarmót og búið að vinna nánast allan sólarhringinn til þess að það yrði mögulegt en síðan stoppaði allt vegna þess að stimpillinn fékks ekki. Það má segja að 99% hafi verið komið en þetta eina prósent hafi vantað upp á.“

Gunnsteinn segir að þeir félagar hafi þurft að vísa fjölmörgum frá sem hafi viljað koma og snæða hjá þeim. Laugavegurinn sé fullur af fólki alla daga og leiðinlegt að geta ekki opnar dyr staðarins fyrir því. Þegar leyfið liggi fyrir verði hins vegar farið í það að panta vörur og boða starfsfólkið í vinnu. Spurður hvort hann búist við að Public House opni á morgun segir hann ekki ljóst hvort það verði á morgun eða hinn. En það verði allavega gert strax og það verður hægt.

Frétt mbl.is: Vantar bara stimpilinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert