Var þetta skothvellur?

Sérsveitin var með mikinn viðbúnað við fjölbýlishúsið í gær og …
Sérsveitin var með mikinn viðbúnað við fjölbýlishúsið í gær og stóð umsátrið í um sex tíma. mbl.is/Eva Björk

Rannsókn lögreglu á mögulegum skothvell í Hlíðarhjalla í Kópavogi í gær beinist nú að því að fá botn í hvað nákvæmlega olli hvellinum. Mögulegt er að ekki hafi verið um skothvell að ræða. Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.

Lögregla fékk í gær lykla hjá eiganda íbúðarinnar þaðan sem skothvellurinn var talinn hafa borist, fór inn og lagði hald á skotvopn og skotfæri. Eigandi íbúðarinnar er jafnframt skráður eigandi skotvopnsins, sem geymt var með réttum hætti að sögn Ásgeirs.

Hann segir að eigandinn sé ekki til rannsóknar, enda var hann ekki í íbúðinni þegar hvellurinn heyrðist.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á vettvang um kl. 15 í gær eftir að þrjár tilkynningar bárust um skothvell í hverfinu. Fleiri íbúar hafa sett sig í samband við lögreglu í dag og sagst hafa heyrt hljóðið. Telja þeir að um byssuhvell hafi verið að ræða.

Lögregla hafði verið á vettvangi daginn áður að kanna ummerki um högl í nágrenni íbúðarinnar. Aðspurður segir Ásgeir að lögregla telji ekki að þau ummerki sem myndir fjölmiðla sýndu í gær séu ný.

Lögregla ræddi við íbúa í gær og hefur tjáð þeim að þeir hafi ekkert að óttast.

Skotvopnið sem lagt var hald á er enn í vörslu lögreglu. Þá er ekki leitað að öðrum einstaklingum í tengslum við mögulegan skothvell.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert