Færðu lögreglunni köku og þakkir

Mynd Evu Bjarkar er afar hugljúf, þar sem hún fangar …
Mynd Evu Bjarkar er afar hugljúf, þar sem hún fangar fallega stund við spennuþrungnar aðstæður. Ljósmynd/Facebook-síðan Lögga á vakt

„Takk fyrir nærgætnina og framkomuna í okkar garð. Kveðja Aron litli.“ Þessi fallegu orð voru rituð á veglega köku sem íbúar í Hlíðarhjalla 53 afhentu aðstoðaryfirlögregluþjóninum Ásgeir Þór Ásgeirssyni í dag. Á kökunni var að finna mynd ljósmyndara mbl.is og Morgunblaðsins, Evu Bjarkar Ægisdóttur, sem hún tók af Ásgeiri og Aron „litla“ á meðan umsátri sérsveitar lögreglustjóra stóð sl. þriðjudag.

„Við fórum bara með köku til þeirra til að sýna þakklæti. Þeir náttúrulega sýndu mér og litla frænda mínum rosalega mikinn stuðning á meðan þessu stóð, og þetta var bara í raun og veru til að sýna þakklæti fyrir það,“ segir Berglind Ósk Sigurðardóttir, en hún var að passa litla frænda sinn á heimili sínu á þriðju hæði í Hlíðarhjalla 53 þegar umsátrið hófst.

Berglind var ein þeirra sem tilkynnti hvellinn dularfulla til lögreglu.

„Ég heyri þennan mikla hvell sirka tíu mínútur í þrjú og þá náttúrulega vissum við að það hefði verið skotið úr byssu áður,“ segir Berglind, en lögrelga hafði einmitt verið á staðnum daginn áður að kanna ummerki eftir högl. „Ég hringi í mömmu og mamma segir mér að hringja í lögguna og ég gerði það, og í framhaldinu fer þetta allt í gang,“ segir hún um það hvernig atburðarásin hófst.

Fundu til öryggis í nærveru sérsveitarinnar

Þegar sérsveitin mætti á vettvang hleypti Berglind þeim inn um aðalinnganginn að stigaganginum, en henni og Aron litla frænda hennar var sagt að halda kyrru fyrir í íbúðinni framan af. Lögreglan var duglega að kíkja inn á þau.

„Þeir voru mjög duglegir að koma hérna og tala við okkur og segja að við værum örugg,“ svarar Berglind, spurð að því hvort þau hafi verið smeyk. „Það var nú ástæðan fyrir því að ég hringdi og fór með kökuna með litla frænda og kærasta systur minnar [föður Arons litla], af því að þeir sýndu okkur báðum svo mikinn stuðning. Það var svo gott að þeir komu og sögðu að við værum örugg og að þetta væri allt í lagi. Þeir voru duglegir að banka uppá og sjá hvernig við hefðum það og hvernig okkur liði.“

Berglind segir að í fyrstu hafi Aron ekki litist á blikuna þar sem sérsveitarmennirnir voru uppstrílaðir með grímur og í skotheldum vestum. Einn þeirra kynnti sig hins vegar sem „löggímann“ og sagði að allt yrði í lagi. Það var tekið fullgilt og allt í lagi upp frá því.

Á jaðri lokaða svæðisins beið faðir Arons, Jóhannes Þorkelsson.

„Mamma hringir í hann og segir honum þetta, og hringir í systur mína [móður Arons] og þau komu bæði,“ segir Berglind. „Löggan talaði rosa mikið við hann og gaf honum alltaf upplýsingar ef það var eitthvað nýtt, þeir héldu honum alltaf upplýstum,“ segir hún. Það hafi Jóhannes verið afar þakklátur fyrir.

Berglind og Aron voru að lokum flutt úr íbúðinni og við það tækifæri var myndin tekin. Berglind segir hana segja mikið, og kann lögreglunni miklar þakkir fyrir hvernig staðið var að málum.

„Mér finnst löggan eiga virkilega mikið hrós skilið fyrir það hvernig hún stóð sig. Eins og ég sagði við þá í dag: Þó að engin hafi verið í íbúðinni þá er alveg svakalega gott að vita að þegar það kemur upp svona aðstaða þá getur maður verið öruggur,“ segir hún.

Berglind segir að eftir því sem hún best veit hafi enn ekki verið upplýst hvað olli hvellnum en málið sé enn í rannsókn.

Fékk gæsahúð

Það kom Ásgeir Þór Ásgeirssyni yfirlögregluþjón skemmtilega á óvart þegar hann var kallaður fram á lögreglustöðinni sem hefur umsjón með Kópavogi og Breiðholti í dag og eftir honum biðu Berglind, Jóhannes og Aron með kökuna fallegu.

„Ég get alveg sagt að maður fékk smá gæsahúð þegar ég var kallaður fram í anddyrið á lögreglustöðinni og þar stóðu þau. Maður þurfti nokkrar sekúndur til að átta sig á þessu,“ segir Ásgeir, en hann er lögreglumaðurinn sem sést leiða Aron á myndinni.

Hann segir að Berglindi og Aron hafi verið sagt að halda kyrru fyrir í íbúðinni framan af, þar sem það hafi verið öruggasti staðurinn fyrir þau. Þegar leið á hafi hins vegar verið ákveðið að koma þeim út.

Á meðan aðgerðum stóð átti Ásgeir í góðum samskiptum við Jóhannes, sem beið fyrir utan lokaða svæðið.

„Ég var í stanslausu sambandi við hann til að halda honum upplýstum og hann var að hringja í sína fjölskyldum,“ segir hann.

Ásgeir segir myndina frábæra, en hún hefur m.a. ratað á forsíðu Facebook-síðunnar „Lögga á vakt“. „Þessi mynd kannski sýnir í raun rólegheitin á vettvangi, eins skrýtinn og hann var,“ segir hann.

Á mynd Evu Bjarkar sést Ásgeir yfirlögregluþjónn leiða Aron litla …
Á mynd Evu Bjarkar sést Ásgeir yfirlögregluþjónn leiða Aron litla í öryggi. mbl.is/Eva Björk
Ásgeir tók á móti Aron þegar hann og Berglind voru …
Ásgeir tók á móti Aron þegar hann og Berglind voru færð úr íbúðinni. mbl.is/Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert