Lögregluaðgerð í hænufetum

„Fólk var mjög rólegt og sýndi okkur skilning,“ segir Gylfi Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um viðbrögð íbúa vegna umfangsmikillar lögregluaðgerðar við Hlíðarhjalla í Kópavogi í gær. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins sem tengist skothvellum í íbúðabyggð.

Alls bárust þrjár tilkynningar um skothvelli við fjölbýlishúsið Hlíðarhjalla 53 með stuttu millibili frá íbúum á fjórða tímanum í gær. Lögreglan hafði á mánudag einnig fengið tilkynningar um að skothvellir hefðu heyrst á svæðinu, en um er að ræða nokkurra vikna gamalt atvik. Lögreglan hafði því farið á vettvang í fyrradag og fundið ummerki um að hleypt hefði verið að haglabyssu á grindverk utan við húsið, en það er nú til rannsóknar hvenær það á að hafa gerst. 

Öryggi íbúa í forgrunni

Þegar tilkynnt var um skothvell í gær brást lögreglan hratt við og var með mikinn viðbúnað, enda fór sérsveit ríkislögreglustjóra á vettvang ásamt almennum lögreglumönnum.

„Við verðum alltaf að tryggja öryggi fólksins; tryggja að enginn slasist,“ segir Gylfi.

Lögreglan hafði áður fengið upplýsingar um að húsráðandinn hefði verið fjarverandi undanfarnar vikur en byrjað var að athuga hvort hann væri aftur kominn heim til sín. Það fékkst fljótlega staðfest að maðurinn var enn fjarverandi og því var talið - miðað við þær tilkynningar sem bárust - að einhver annar væri mögulega inni í íbúðinni. 

„Það var eitthvað sem olli þessum hávaða þarna inni og við urðum því að halda áfram,“ segir Gylfi. Spurningin var því hver bæri ábyrgð á þeim skothvellum sem tilkynnt var um í gær.

Umsátrið stóð yfir í nokkrar klukkustundir en á endanum fóru sérsveitarmenn inn í íbúðina og þá kom í ljós að hún var mannlaus. Þar fannst hins vegar haglabyssa og skotfæri. Ekki er þó hægt að fullyrða hvort einhver hefði verið í íbúðinni fyrr um daginn. Það er nú til rannsóknar, eins hvort um raunverulega skothvelli hafi verið að ræða.

Íbúðareigandinn hefur verið fjarverandi undanfarnar vikur

Lögreglan hefur rætt við íbúðareigandann sem hefur verið fjarverandi úti á landi undanfarnar vikur. Það stendur til að taka af honum formlega skýrslu fljótlega. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en vegna minniháttar mála - ekki vegna mála sem tengjast notkun skotvopna. Lögreglan segir að maðurinn hafi öll tilskilin skotvopnaleyfi. 

Aðspurður segir Gylfi að málið sé ekki talið tengjast undirheimaátökum með neinum hætti. 

Spurður út í aðgerðirnar í gær og viðbrögð íbúa, segir Gylfi að þeir hafi stöðugt verið upplýstir um gang mála.

„Fólk var mjög rólegt og sýndi okkur skilning. Það var talað um það að við myndum vinna okkur vinnu og fá næði til að gera það. Fólk lýsti trausti á það sem við vorum að gera. Við sögðum að við færum hænufet í einu og tryggðum öryggi allra - það lægi ekkert á. Við gefum okkur þann tíma sem við þurfum,“ segir Gylfi.

Lögreglan lokaði stóru svæði í kringum Hlíðarhjalla 51-55 og voru íbúðir rýmdar. Talið er að aðgerðirnar hafi haft áhrif á líf um 150 íbúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert