Ræða Gunnars Braga í heild

Ræða Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um fundarstjórn forseta, þar sem rætt var um lagasetningu ríkisstjórnarinnar á verkföll BHM og hjúkrunarfræðinga, hefur vakið mikla talsverða athygli í dag. Þar hafnaði hann ásökunum stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórnina skorti kjark og sakaði hana á móti um kjarkleysi meðal annars í Icesave-málinu og þegar komið hafi að húsnæðisskuldum heimilanna. Rifjaði hann einnig upp að síðasta ríkisstjórn hefði sett lög á verkfall flugvirkja.

Ræðan fer hér á eftir í heild:

„Virðulegi forseti. Það er gaman að sjá hve stjórnarandstaðan nýtur þess núna að vera í sviðsljósinu. Ekki naut núverandi stjórnarandstaða þess að vera í sviðsljósinu þegar hún var hér á síðasta kjörtímabili að leiða stjórn landsins. Hvernig var það? Hvernig var það þá? Hvernig var það þegar núverandi stjórnarandstaða setti lög á flugvirkja? Hvernig var umræðan hérna þá? Var það hroki og hræsni sem þá var um að ræða?

Ekki var háttvirtur þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þá hér í ræðustól að tala um hroka og vanvirðingu þegar hún studdi það með jái að setja lög á flugvirkja. Það skiptir greinilega máli hver það er og hverjir eru við borðið. Það er alveg augljóst. Og svo tala menn um kjarkleysi hér. Hver er það sem þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfum? Ekki háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson.

Hver er það sem þorði að taka á Icesave? Ekki háttvirtur þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og hver þorði að lækka lán heimilanna? Ekki Samfylkingin og ekki Vinstri græn. Hvar er kjarkurinn? Hræsni stjórnarandstöðunnar er það sem stendur upp úr og hefur alltaf gert.“

Myndband af ræðunni:

<iframe frameborder="0" height="288" scrolling="no" src="http://player.netvarp.is/althingi/?type=vod&amp;width=512&amp;height=288&amp;icons=yes&amp;file=20150612T132523&amp;start=1725&amp;duration=96&amp;autoplay=false" style="border: 0; overflow: hidden;" type="text/html" width="512"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert