Konur keppa víst á grasvöllum

Kvennaliðið hefur undanfarin ár spilað á Torfnesvelli á Ísafirði eða …
Kvennaliðið hefur undanfarin ár spilað á Torfnesvelli á Ísafirði eða grasvelli í Bolungarvík - mynd frá Ísafirði. mbl.is/Kristinn

„Þetta er ömurlega leiðinlegur misskilningur. Ég fékk rangar upplýsingar og vissi einfaldlega ekki að það væri búið að færa heimavöllinn til Reykjavíkur. Mér þykir þetta alveg ótrúlega leiðinlegt,“ segir Soffía Sóley Árnadóttir, knattspyrnukona hjá BÍ í Bolungarvík.

Facebook færsla Soffíu, sem leikur með 4. flokki BÍ, í hópnum Beauty Tips vakti mikla athygli í gær, en þar sagði hún frá því að meistaraflokkur kvenna hjá BÍ fengi ekki að spila á grasvöllum líkt og karlaliðið. Þannig sagði hún fyrirkomulagið til marks um ójafnrétti kynjanna innan íþróttarinnar, enda kvennaliðið sett á gervigras. Málið reyndist hins vegar misskilningur, en Soffía fékk rangar upplýsingar og kveðst hafa verið of fljót á sér að miðla þeim á veraldarvefinn.

Frétt mbl.is: Konur fá ekki að keppa á grasvelli

„Þetta breytir því ekki að það vantar upp á jafnrétti í fótbolta. Ég var hins vegar bara ekki að hugsa nógu mikið, ég hefði auðvitað átt að bíða og spyrja betur út í þetta,“ segir Soffía.

Hafa alltaf spilað á grasinu

Margrét Halldórsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, segir alrangt að kvennaliðið fái ekki að spila á grasvelli. „Það erum um þrjú ár síðan meistaraflokkur kvenna var endurvakinn hér og þær hafa alltaf spilað á grasinu, annaðhvort á Torfnesvelli eða grasvellinum í Bolungavík. Í sumar náði hins vegar ekki að mynda lið, en liðið er starfrækt í samstarfi við ÍR,“ segir Margrét.

Tveir heimaleikir eru skráðir á Torfnesvelli í sumar að sögn Margrétar, en hinir fara fram í Reykjavík. „Það hafa engir leikir farið fram hjá liðinu hér ennþá, sem veldur því eflaust að margir eru hissa.“ Hún segir tómstundayfirvöld á svæðinu vanda sig í málum af þessu tagi og mikið sé lagt upp úr jafnrétti.

„Ísafjarðarbær og héraðssambandið HSV eru með samstarsfssamning og hafa í tvígang fengið viðurkenningu frá UMFÍ og ÍSÍ. Þar er m.a. klausa um jafnrétti. Það er alveg ljóst að það er ekki fullkomið jafnrétti í íþróttinni og ekki milli greina heldur, en þetta tiltekna mál á hins vegar ekki við nokkur rök að styðjast,“ segir Margrét.

Hún ber þó engan kala til Soffíu vegna málsins og segir einfaldlega um leiðinlegan misskilning að ræða. Þannig hafi Soffía haft samband við sig, beðist afsökunar og málið sé því leyst í góðu. 

Öflugt starf á svæðinu

Hún segir erfitt að halda úti meistaraflokkum í bænum, enda hverfi margir til verk- eða háskólanáms á öðrum slóðum að loknu grunn- eða framhaldsskólaprófi. „Við berjumst í bökkum með þetta, en höldum þó úti meistaraflokkum í körfubolta, handbolta, fótbolta og blaki,“ segir Margrét og bendir á að þannig hafi tekist að halda úti meistaraflokknum hjá konum í samstarfi við ÍR.

Þá bendir hún á að öflugt íþrótta- og tómstundastarf fari fram í bænum. T.a.m. er gert hlé á skólahaldi barna í 1.-4. Bekk milli klukkan 11 og 12 á daginn og fara þá nemendur í sínar tómstundir. „Þetta er nú gert í þriðja sinn, en börn, foreldrar og kennarar eru öll gríðarlega ánægð. Börnin fá að hlaupa og djöflast og koma svo endurnærð til baka,“ segir Margrét. Þannig mæta nemendur á sínar íþróttaæfingar á tímanum, en þeir sem ekki stunda íþróttir geta farið í tónlistartíma, lesið bækur, stundað jóga o.s.frv. Hún segir því ljóst að mikið sé gert á svæðinu til að allir geti notið sín í tómstunda- og íþróttastarfi.

Soffía Sóley harmar misskilninginn.
Soffía Sóley harmar misskilninginn. Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert