Margþætt og krefjandi verkefni

Sýrlenskir flóttamenn ganga meðfram lestarteinum og freista þess að komast …
Sýrlenskir flóttamenn ganga meðfram lestarteinum og freista þess að komast frá Serbíu til Ungverjalands. AFP

Móttaka flóttafólks er samvinnuverkefni ráðuneyta, sveitarfélaga, stofnana og nefnda, en að mörgu er að huga. Fólkið á m.a. rétt á fjárhagsaðstoð, félagslegri ráðgjöf, húsnæði, menntun, heilbrigðisþjónustu og túlkaþjónustu, en markmið aðstoðarinnar er að „tryggja svo vel sem kostur er aðlögun flóttafólksins að íslenskum aðstæðum“.

Um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks er fjallað í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar. Þar segir m.a. að það sé velferðarráðherra sem fari með yfirstjórn mótttöku og aðstoðar við flóttafólk, en utanríkisráðuneytið greiðir kostnað við móttöku fólksins.

Þess ber að geta að reglurnar eru frá 2013, þegar einn ráðherra sat í velferðarráðuneytinu. Þar skipta nú með sér verkum félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Málefni flóttamanna falla undir félagsmálaráðherra, en einstaka mál sem þeim tengjast undir heilbrigðisráðherra.

Í flóttamannanefnd sitja fulltrúar innanríkisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Rauða krossins, en formaður er skipaður af velferðarráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að „leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa, hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku hópanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er“.

Fjölskyldur og einstaklingar valdir í samráði við Flóttamannastofnun SÞ

Flóttamannanefnd ráðfærir sig við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna, og leggur í kjölfarið fram tillögu til velferðarráðherra og utanríkisráðherra. Þeir leggja svo aftur fram tillögu í ríkisstjórn um móttöku tiltekins fjölda fólks frá ákveðnu landi eða löndum.

Sérstök sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda ferðast í kjölfarið til þess ríkis þar sem flóttafólkið hefur fengið hæli og leggur mat á hvaða fjölskyldum eða einstaklingum er boðið að setjast að á Íslandi, í samráði við Flóttamannastofnunina. Í sendinefndinni eiga sæti fulltrúar viðkomandi ráðuneyta, Rauða krossins og Útlendingastofnunnar.

Þegar ljóst er hvaða hópur kemur til landsins er haft samráð við ýmsa aðila; mennta- og menningarmálaráðuneytið er upplýst um einstaklinga á framhaldsskólaaldri, gerður er samningur við Rauða krossin um útvegun innbús og umsjón með stuðningsfjölskyldum svo eitthvað sé nefnt, og samið við sveitarfélögin um móttöku fólksins.

„Samningar við sveitarfélög skulu taka til þjónustu og náms sem ætla má að flóttafólkið þarfnist og eru á hendi sveitarfélaga, svo sem útvegun húsnæðis, leikskóla, grunnskóla, félagsráðgjafar, fjárhagsaðstoðar og aðstoðar við atvinnuleit. Enn fremur skal flóttafólki tryggð heilbrigðisþjónusta, sbr. 22. og 23. gr., íslenskukennsla og samfélagsfræðsla, sbr. 17. og 19. gr.,“ segir í viðmiðunarreglunum.

Framkvæmdahópur er skipaður til að sinna daglegum verkefnum vegna móttökunnar.

Eiga bæði réttindi og skyldur

Í viðmiðunarreglunum segir að leitast skuli við að gefa flóttafólki „kost á að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, en jafnframt virða rétt þeirra til að vernda og rækta eigin menningu“.

Flóttafólk á rétt á fjárhagsaðstoð í að minnsta kosti eitt ár, en hún skerðist ef viðkomandi fær að minnsta kosti hálft starf. Allir eiga rétt á ókeypis kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og samfélagsfræðslu, en börn eiga einnig rétt á kennslu í og á eigin móðurmáli „þar sem því verður við komið“.

Fólkið telst tryggt í íslenskum almannatryggingum frá komudegi og skal fara í heilbrigðisskoðun og leggja fram heilbrigðisvottorð. Greitt er fyrir heilsugæsluþjónustu, lyf og hjálpartæki fyrstu sex mánuðina, en að þeim liðnum er gert ráð fyrir að þeir sjúkdómar og heilsubrestir sem flóttafólkið hafði við komuna við landsins hafi veerið greindir og meðhöndlaðir eins og kostur er.

Svipað á við um tannlækningar; gert er við skemmdar tennur og nauðsynleg tannsmíði framkvæmd flóttafólki að kostnaðarlausu, en tannlækni er skylt að gera meðferðaráætlun fyrir hvern einstakling sem þarfnast samþykkis yfirtannlæknis velferðarráðuneytisins áður en meðferð hefst.

Flóttafólk fær að jafnaði dvalarleyfi til þriggja ára í senn. Því er skylt að sækja námskeið í íslensku og taka virkan þátt í atvinnuleit, og þá er lögð áhersla á að það þiggi viðtöl hjá sálfræðingi að tveimur árum liðnum frá komu til landsins, því að kostnaðarlausu.

Til að öðlast íslenskarn ríkisborgararétt verður flóttamaður að hafa verið búsettur hér á landi í fimm ár, en ef aðstæður breytast í upprunalandi flóttamanns er heimilt að veita honum aðstoð við heimflutning. Þá er heimilt að veita flóttamanni styrk vegna fjölskyldusameiningar.

Fjölskylda gengur um borð í langferðabifreið eftir að hafa lent …
Fjölskylda gengur um borð í langferðabifreið eftir að hafa lent í Piraeus-höfn í Aþenu. AFP
Flóttamenn bera tjald er þeir bíða eftir því að komast …
Flóttamenn bera tjald er þeir bíða eftir því að komast yfir landamærin frá Grikklandi til Makedóníu. AFP
Slagsmál í örtröð á aðallestarstöðinni í Búdapest.
Slagsmál í örtröð á aðallestarstöðinni í Búdapest. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert