„Getum ekki beðið lengur eftir framtíðinni“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það verður skoðað alvarlega á yfirstandandi þingi að gera breytingu á aðalnámskrá grunnskóla með það að markmiði að koma forritun þar að. Þetta sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Svaraði hann þar spurningu Brynhildar S. Björnsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, um hvort hann teldi Ísland tilbúið að ryðja brautina í þessum efnum, en Björt framtíð ætlar sér að leggja fram tillögu um efnið á Alþingi í vikunni.

Illugi hrósaði þingmönnum Bjartrar framtíðar fyrir forgöngu í þessu máli og sagði að skortur á kennslu í þessu fagi endurspeglaðist í vali á námi í háskóla seinna meir. Sagði hann þetta vera orð í tíma töluð og að hann myndi skoða málið í framhaldinu.

Brynhildur vísaði til þess í máli sínu að í vikunni hefði borgarstjórinn í New York kynnt svipaða breytingu og þá hefði þróunin verið í þessa átt á Norðurlöndunum. Hér væri viðvarandi skortur á tæknimenntuðu fólki og það væri hagur nýsköpunar og fyrirtækja í landinu að efla þessa menntun. Illugi tók heilshugar undir þetta og sagði að grunnurinn væri að bæta lestur, en að kennsla í stærðfræði og raungreinum þyrfti í framhaldinu að bæta.

Sagðist Illugi ekki vera hlynntur því að gera reglulega allsherjar breytingar á aðalnámskrá, heldur ætti hún að fá að þróast hægt og rólega yfir tíma. Sagði hann að viðbót sem þessi væri í góðu samræmi við þessa hugmyndafræði hans. Brynhildur sagðist mjög sátt með svar ráðherra og sagði að þótt að það væru hindranir í þessu máli, svo sem varðandi að finna kennara, þá væri þetta verkefni sem þyrfti að hlúa að. „Getum ekki beðið lengur eftir framtíðinni,“ sagði hún.

Brynhildur S. Björnsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur S. Björnsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert