Felix mun tala öðruvísi á Bessastöðum

Felix Bergsson mun ábyggilega haga orðum sínum öðruvísi en áður fyrr, nái eiginmaður hans kjöri sem forseti. Þetta segir Baldur Þórhallsson þegar rætt er um ýmis stóryrði eiginmanns hans á samfélagsmiðlum sem nokkuð hefur verið rætt um, ekki síst eftir að hann lokaði reikningi sínum á samfélagsmiðlinum X.

Baldur er nýjasti gestur Spursmála þar sem hann ræðir forsetaframboð sitt og sína sýn á embættið.

Orðaskiptin um framgöngu Felix Bergssonar á samfélagsmiðlum má sjá hér að neðan.

Umræðuhefðin

Tölum um umræðu og umræðuhefð. Því að það er eitt af því sem hefur verið rætt opinberlega og það varðar framgöngu þíns ágæta manns á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur oft á tíðum gerst nokkuð stóryrtur leyfi ég mér að segja bæði á facebook og instagram [á að vera Twitter/X]. Hann kallaði t.d. núverandi forsætisráðherra Ítalíu fyrsta kvenkyns fastisann sem gegni því embætti þar í landi [...].

Erfitt veganesti á Bessastaði?

Er þetta ekki dálítið erfitt veganesti inn á Bessastaði þegar svona munnsöfnuður hefur verið viðhafður um menn og málefni?

„Nei alls ekki. Þótt ég ætli að líta yfir axlirnar á þingheimi þá er ég ekki að líta yfir axlirnar á maka mínum og hvað hann er að skrifa á samfélagsmiðlunum.“

En þið ætlið að skipta með ykkur verkum, þannig að hann verður....

„Ekki skipta með okkur verkum heldur vinna þetta í sameiningu. Þarna er Felix einmitt að verja hópa sem honum finnst hafa verið ráðist harkalega á, hvort sem það var hinsegin fólk, samkynhneigðir eða transfólk. Tekur hanskann upp fyrir þau, svarar af krafti. Í þessu felst bara málfrelsi og við tökum upp hanskana fyrir þá sem okkur finnst vera á ráðist. Það gerum við í okkar mannréttindabaráttu á kröftugan og ákveðinn hátt.“

Af hverju eyddi hann reikningnum?

Ef þér finnst þetta í lagi og að þetta sé til marks um að taka málstað hinna smáu og meiddu og hræddu, af hverju eyddi hann þá Twitter-reikningnum í upphafi kosningabaráttunnar?

„Ég held að Felix hafi farið út af Twitter í janúar. Hann hefur tekið sér hlé áður á Twitter...“

Já hann hefur tekið hlé, en hann hefur ekki lokað reikningnum og komið í veg fyrir að fólk geti skoðað það sem hann hefur skrifað. En er ekki eðlilegt, að þegar þið sækist eftir því að komast á Bessastaði að hann opni aftur reikninginn svo að fólk geti áttað sig á...

„Felix hefur ekki nokkurn skapaðan hlut að fela. Hann fær stundum alveg upp í kok af samfélagsmiðlum og tekur sér hlé frá þeim. Hann hefur bæði gert það á facebook og X-inu.“

Baldur Þórhallsson mætti í Hörpu í gær til að skila …
Baldur Þórhallsson mætti í Hörpu í gær til að skila inn framboði sínu til embættis forseta. Með honum í för var eiginmaður hans, Felix Bergsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður tekur hlé með því að slökkva á tölvunni en ekki með því að eyða reikningnum.

„Já, ég er sjálfur ekki, jú ég er að vísu á Twitter, en ég er reyndar mjög lítið á Twitter, sko. En þetta er bara að taka þátt í þessari samfélagsumræðu, og þegar við erum í þessari mannréttindabaráttu...“

En mun hann tala svona áfram...

„Það er ég alveg sannfærður um að hann muni ekki gera það, enda er hann ekki í framboði þarna eða maki forsetaframbjóðanda, eða bóndi forseta.“

Eiga menn að tala öðruvísi þegar þeir eru í framboði en þegar...

Meðal þess sem Felix hefur látið frá sér á X …
Meðal þess sem Felix hefur látið frá sér á X eru þessi ummæli um forsætisráðherra Ítalíu.

Maður sátta

„Menn, auðvitað. Þegar við erum í mannréttindabaráttu, og ég hef tekið þátt í mannréttindabaráttu í yfir 30 ár. Og það hefur oft reynt mikið á. Ég hef hins vegar alltaf verið maður sátta og smáskrefanálgunarinnar sem ég kalla, að taka þetta skref fyrir skref og ætla ekki að ná þessu öllu í einu...“

Er það hluti af mannréttindabaráttu að kalla Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, kvenkyns fastista? Þetta er manneskja sem þið eigið eftir að hitta ef þú nærð kjöri.

„Það eru margir stjórnmálaskýrendur og stjórnmálamenn sem hafa látið þessi orð falla um hana. Ég ætla ekkert að taka undir þau. Það eru margir, þú veist það, virt blöð úti í heimi tala á sama hátt um hana. Þannig að Felix er ekkert að segja neitt nýtt undir sólinni. Menn geta verið andsnúnir því en þetta er skoðun mjög margra á forsætisráðherra Ítalíu. Ég ætla ekkert að úttala mig um það mál.“

Viðtalið við Baldur má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert